Erlent

Vikið úr starfi sínu í Hvíta húsinu eftir að hafa borið vitni gegn Trump

Samúel Karl Ólason og Sylvía Hall skrifa
Alexander Vindman, nú fyrrverandi meðlimur þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins og sérfræðingur í málefnum Úkraínu.
Alexander Vindman, nú fyrrverandi meðlimur þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins og sérfræðingur í málefnum Úkraínu. AP/Andrew Harnik

Alexander Vindman, ofursta hjá her Bandaríkjanna, hefur verið vikið úr starfi sínu í Þjóðaröryggisráði Hvíta hússins og var honum fylgt þaðan út af öryggisvörðum í dag. Vindman er einn þeirra sem báru vitni gegn Donald Trump, forseta í rannsókn fulltrúadeildar Bandaríkjaþings á meintum embættisbrotum hans.

Framburður Vindman féll í grýttan jarðveg hjá hörðustu stuðningsmönnum Trump yst á hægri vængnum og í hægri sinnuðum fjölmiðlum. Efuðust þeir um þjóðrækni Vindman sem særðist þegar hann barðist fyrir Bandaríkin í Íraksstríðinu og var sæmdur heiðursorðu.

Trump var sýknaður á miðvikudaginn og hefur síðan þá heitið hefndum. Lögmenn Vindman segja að bróður hans, sem er lögfræðingur hjá Þjóðaröryggisráðinu, hafi einnig verið fylgt úr Hvíta húsinu. Hann var þó ekki vitni gegn Trump.

Sjá einnig: Bandamenn Trump ráðast á vitni vegna uppruna þess

Fyrr í dag sagði Trump við blaðamenn að hann væri ekki ánægður með Alexander Vindman en það væri forsvarsmanna Þjóðaröryggisráðsins að ákveða næstu skref. Nokkrum klukkustundum síðar var forsetinn farinn að deila tístum þar sem kallað var eftir því að Vindmann yrði vikið úr starfi hið snarasta.

Hér að neðan má sjá eitt tístanna sem forsetinn deildi.



Vindman var sérfræðingur þjóðaröryggisráðsins í málefnum Úkraínu og bar vitni fyrir þremur nefndum fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sem rannsökuðu möguleg embættisbrot Trump og tilraunir hans til að knýja úkraínsk stjórnvöld til að rannsaka pólitískan andstæðing. Einn lögmanna Vindman segir þetta skýrar pólitískar hefndaraðgerðir. Það leiki enginn vafi á því hvers vegna hann hefði misst starf sitt.

„Sannleikurinn hefur kostað Alexander Vindman starf hans, starfsferil og einkalíf,“ sagði lögmaðurinn David Pressman í yfirlýsingu.


Tengdar fréttir

Hefur aldrei barist gegn spillingu í Úkraínu: „Forsetanum er drullusama um Úkraínu“

Bandamenn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, hafa ítrekað haldið því fram að honum sé annt um að berjast gegn kerfisbundinni spillingu í Úkraínu. Með því að halda aftur af tæplega 400 dollara neyðaraðstoð, sem þingið hafði samþykkt, hafi forsetinn verið að kanna vilja yfirvalda Úkraínu til að berjast gegn spillingu. Markmiðið hafi ekki verið að beita Úkraínumenn þrýstingi.

Sagði símtalið umdeilda óviðeigandi

Alexander Vindman, meðlimur þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins, segir umdeilt símtal Donald Trump og Volodymir Zelensky, forseta Bandaríkjanna og Úkraínu, hafa verið óviðeigandi. Það hefði ekki verið rétt af Trump að biðja erlendan þjóðarleiðtoga að rannsaka bandarískan borgara og pólitískan andstæðing hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×