Erlent

Hrósaði sigri og fordæmdi Demókrata og Mitt Romney

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Forsetinn hélt uppi forsíðu dagsins hjá Washington Post og sagði þetta einu góðu fyrirsögnina sem hann hefði fengið hjá því blaði.
Forsetinn hélt uppi forsíðu dagsins hjá Washington Post og sagði þetta einu góðu fyrirsögnina sem hann hefði fengið hjá því blaði. vísir/getty

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, var sigri hrósandi í dag þegar hann ávarpaði þjóð sína í fyrsta sinn eftir að öldungadeild Bandaríkjaþings sýknaði hann af tveimur ákærum um embættisbrot í gær.

Hann fordæmdi Demókrata fyrir að hafa farið fram með ákærur á hendur honum og kallaði þá illa og spillta. Þá lýsti forsetinn gremju sinni vegna rannsóknanna sem hafa einkennt embættistíð hans og beindi spjótum sínum meðal annars að rannsókn Roberts Mueller.

Það má segja að Trump hafi sveiflast á milli fögnuðar og fordæmingar í ávarpi sínu í Hvíta húsinu í dag. Hann kvartaði undan því sem hann kallaði óheiðarlega pólitík sem hafi orðið til þess að hann var ákærður.

Hann fordæmdi ekki aðeins Demókrata heldur einnig Repúblikanann Mitt Romney. Hann var eini öldungadeildarþingmaður Repúblikana sem greiddi atkvæði með því að ákæra Trump og fór þannig gegn flokkslínunni.

„Þetta var illgjarnt. Þetta var spillt. Þetta voru skítugar löggur, uppljóstrarar og lygarar og þetta ætti aldrei að gerast fyrir annan forseta, nokkurn tímann. Ég veit ekki hvort að aðrir forsetar hefðu þolað þetta,“ sagði Trump.

Forsetinn kallaði Romney misheppnaðan forsetaframbjóðanda sem hefði notað trú sína sem hækju þegar hann tilkynnti að hann ætlaði að greiða atkvæði með því að ákæra Trump fyrir að misnota vald sitt.

Romney var forsetaframbjóðandi Repúblikana árið 2012 en laut í lægra haldi fyrir Barack Obama sem var þá sitjandi forseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×