Erlent

Segir af sér vegna stuðnings öfgaflokks

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Thomas Kemmerich, leiðtogi Frjálsra demókrata í Þýringalandi, þar sem áður var Austur-Þýskaland, fór í dag fram á nýjar kosningar og sagði af sér sem forsætisráðherra eftir að þingið samþykkti skipan hans óvænt í gær. Stuðningur öfgaþjóðernishyggjuflokksins AfD við skipanina réði úrslitum og vakti afar hörð viðbrögð.

Hér má sjá hvar Þýringaland er.Vísir/Hafsteinn

Óvæntur stuðningur

Kosið var á ríkisþing Þýringalands í október og fékk Vinstriflokkurinn flest sæti. Leiðtogi flokksins tilkynnti um að samkomulag um myndum minnihlutastjórnar hefði náðst á þriðjudag og bjuggust því flestir við því að þingið myndi samþykkja skipan hans í gær. Sú varð ekki raunin. Thomas Kemmerich, forsætisráðherraefni Frjálsra demókrata, varð óvænt fyrir valinu.

Níutíu sæti eru á þingi Þýringalands og má skipta þeim gróflega í þrjár blokkir. Vinstriflokkurinn, Jafnaðarmenn og Græningjar hafa 42 sæti og ætluðu að mynda stjórn saman. Kristilegir demókratar og Frjálsir demókratar hafa svo 26 sæti. Þar af hafa Frjálsir demókratar, sem að óbreyttu munu mynda stjórn, ekki nema fimm sæti. AfD hefur restina, 22 sæti, en aðrir þýskir flokkar hafa alla tíð útilokað samstarf með þeim.

Svona skiptust þingsætin eftir kosningar októbermánaðar.Vísir/Hafsteinn

Þrjár atkvæðagreiðslur þurfti til þess að skera úr um hver yrði forsætisráðherra. Í fyrstu tveimur studdi AfD eigin frambjóðenda en greiddi Kemmerich óvænt atkvæði í þriðju lotu. Það gerðu Kristilegir demókratar einnig og sá stuðningur dugði.

Merkel ósátt

Angela Merkel kanslari tjáði sig um vendingarnar í dag. Sagði að það væri best að endurtaka atkvæðagreiðsluna. „Það sem skiptir máli fyrir Kristilega demókrata er að flokkurinn má ekki eiga aðild að stjórn þessa nýkjörna forsætisráðherra. Þetta var afar slæmur dagur fyrir lýðræðið og gildi Kristilegra demókrata.“

Kemmerich brást við þessu og sagði þörf á nýjum kosningum svo hægt væri að afmá þann smánarblett sem fékkst við stuðning AfD.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×