Fótbolti

Stjóri Birkis rekinn frá Brescia í annað sinn á þremur mánuðum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eugenio Corini hefur tvisvar verið sagt upp störfum hjá Brescia á þremur mánuðum.
Eugenio Corini hefur tvisvar verið sagt upp störfum hjá Brescia á þremur mánuðum. vísir/getty

Brescia, sem Birkir Bjarnason leikur með, hefur sagt knattspyrnustjóranum Eugenio Corini upp störfum. Þetta er í annað sinn sem Brescia rekur Corini á tímabilinu.

Hann var látinn taka pokann sinn í nóvember en tók aftur við Brescia í desember þegar Fabio Grosso var rekinn.

Brescia samdi við Birki um miðjan janúar. Hann hefur leikið einn leik með liðinu.

Brescia hefur aðeins fengið tvö stig í síðustu sjö leikjum sínum. Liðið er í nítjánda og næstneðsta sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar, fjórum stigum frá öruggu sæti. Næsti leikur Brescia er gegn Udinese á sunnudaginn.

Forseti Brescia er Massimo Cellino sem verður seint talinn sá þolinmóðasti í bransanum.

Hann rak fjölmarga stjóra meðan hann stýrði málum hjá Cagliari og Leeds United og frá því hann keypti Brescia 2017 hefur hann margoft skipt um stjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×