Handbolti

Seinni bylgjan: „Blær er með allan pakkann“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Blær Hinriksson átti sinn besta leik í vetur þegar HK vann KA, 23-27, á Akureyri í Olís-deild karla á laugardaginn.

Blær skoraði ellefu mörk, fiskaði þrjú vítaköst og stal boltanum þrisvar sinnum.

„Í síðasta þætti spurðirðu hverjir ég héldi að myndu stíga upp og þremur dögum síðar mætir hann og gerir ellefu mörk, nýkominn upp úr meiðslum,“ sagði Logi Geirsson í Seinni bylgjunni í gær.

„Á fundinum fyrir tímabil vorum við Gulli [Guðlaugur Arnarsson] mjög hrifnir af honum. Við sögðum að hann væri spennandi leikmaður en það vorum ekki allir sem voru vissir.“

Logi og Gulli hrífast af hugarfari Blæs og viðhorfi til leiksins.

„Hann er með allan pakkann og við viljum sjá þessa stráka með þetta sigurhugarfar. Að menn gefi sig alla í leikinn og hann er með það,“ sagði Logi.

„Það geislar af honum bæði sjálfstraust og barátta. Það gerði það líka þennan stutta tíma sem hann var með fyrir áramót. Maður spyr sig, ef hann hefði verið til staðar, hvað hefði hann getað gefið liðinu og hvert væri hann kominn ef hann hefði ekki meiðst,“ sagði Gulli.

Blæ er fleira til lista lagt en að spila handbolta. Hann er einnig leikari og vakti mikla athygli í kvikmyndinni Hjartasteini. Hann fékk Edduverðlaun sem besti leikari í aðalhlutverki fyrir frammistöðu sína í myndinni.

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×