Stefnt er að því að ganga frá ráðningu nýs ríkissáttasemjara á allra næstu dögum. Helga Jónsdóttir hefur verið settur ríkissáttasemjari síðan Bryndís Hlöðversdóttir, fyrrverandi ríkissáttasemjari, tók við embætti ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu um áramótin.
Gissur Pétursson, ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins, segir í samtali við fréttastofu að málið sé í vinnslu. Það er Ásmundur Einar Daðason sem skipar í stöðuna en hann hefur þegar fengið til sín tillögur ráðgefandi hæfnisnefndar.
Umsóknarfrestur rann út þann 20. desember en sex sóttu um stöðuna. Aðalsteinn Leifsson framkvæmdastjóri, Gylfi Arnbjörnsson, hagfræðingur og fyrrverandi forseti ASÍ, Herdís Hallmarsdóttir lögmaður, Lara De Stefano þjónn, Ólafur Þorsteinn Kjartansson ráðgjafi og Rannveig S. Sigurðardóttir hagfræðingur.
Ráðgefandi hæfnisnefnd skipuðu þau Drífa Snædal, forseti ASÍ, Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins auk Gissurar Péturssonar ráðuneytisstjóra sem var formaður nefndarinnar.
