Nautið Haukur stefnir hraðbyri að verða þyngsta naut landsins ef heldur áfram sem horfir því hann er orðinn 450 kíló aðeins sjö mánaða gamall. Haukur þyngist um tæplega tvö kíló á dag.
Haukur á heima á einangrunarstöðinni á Stóra Ármóti í Flóahreppi þar sem hann er ásamt nokkrum öðrum nautum og kvígum. Stöðin er fyrir holdagripi og hefur starfsemi gengið vel frá því að stöðin opnaði en þar er verið að rækta upp nýjan stofn holdanauta af Aberdeen Angus kyni.
Stöðin er rekin á vegum Nautgriparæktarmiðstöðvar Íslands en þar er Baldur Sveinsson bústjóri.
Nautið Haukur vekur sérstaka athygli í stöðinni því hann þyngist og þyngist, miklu meira en allir áttu von á.
„Já, þetta er vel tvöfalt miðað við það sem við þekkjum úr Íslendingunum þannig að það er til einhvers að slægjast vonum við með þessu verkefni. Hann er fæddur 29. júní í vor og er komin í 450 kíló. Haukur fær hey eins og hann vill og ég er að gefa honum um tvö kíló af kjarnfóðri á dag“, segir Baldur og tekur skýrt fram að Haukur sé hvorki á Ketó né vegan, það passi honum ekki.
Baldur gerir ráð fyrir því að Haukur muni ná 800 til 900 kílóum þegar hann verður fullvaxinn eftir nokkra mánuði.
En hvernig naut er Haukur?
„Hann er mjög geðgóður og með gott skap þannig að við getum spjallað saman.
En stendur til að setja Hauk í megrun?
„Nei, ekki fyrr en hann þarfa að fara að sinna sínum viðskiptavinum þegar þar að kemur, þá þarfhann kannski aðeins að vera spengilegur og sætur“, segir Baldur og hlær.