Óveðrið hefur sett raforkukerfi landsins úr skorðum. Þannig liggja nokkrar línur Landsnets úti og yfir 5.700 notendur Rarik hafa orðið fyrir barðinu á rafmagnstruflunum. Erfitt hefur reynst fyrir vinnuflokka Rarik að athafna sig vegna veðurhamsins.
Rarik birti nýjustu upplýsingar um stöðu mála klukkan 13:30.
Suðurland
Rafmagnstruflanirnar eru umfangsmiklar sunnan til á landinu, þar sem óveðrið gekk fyrst á land. Á Suðurlandi eru truflanir á átta stöðum og rafmagnslaust er á nokkrum bæjum undir Eyjafjöllum.
Enn er rafmagnslaust í Vík og í Mýrdal. Tveir straurar brotnuðu í Víkurlínu og eru rafmagninu skammtað í Vík. Íbúar eru beðnir um að spara rafmagn.
Rafmagnslaust er við Þingvallavatn frá Miðfelli og að Mjóanesi. Þá er rafmagnslaust í Holtum, Landsveit og upp með Heklubæjum. Einnig er rafmagnslaust á nokkrum bæjum í Landeyjum þar sem 27 rafmagnsstaurar brotnuðu í óveðrinu.
Einnig er rafmagnslaust í innsta hluta Fljótshlíðar og inn í Þórsmörk. Línan á milli Kirkjubæjarklausturs og Víkur er úti en þar með er rafmagnslaust í Álftaveri, Meðallandi og hluta Skaftártungna.
Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir von á frekari truflunum þegar líða tekur á daginn. Útlit sé fyrir eldingaveðri á sunnanverðu landinu en því fylgir alltaf möguleg hætta á niðurslætti lína.
Austurland
Rafmagnslaust hefur verið í sveitarfélaginu Hornafirði vegna truflunar í flutningskerfinu. Búið er að koma rafmagni á Höfn eftir margra klukkustunda rafmagnsleysi. Enn er unnið að því að koma rafmagni á sveitirnar.
Norðurland
Á Norðurlandi er einn bær í Miðfirði rafmagnslaus og verður farið í viðgerð um leið og aðstæður leyfa.
Vesturland
Tvær truflanir eru í gangi á Vesturlandi. Álma að Húsafelli er úti þar sem tvær slár brotnuðu. Hvalfjarðarlína er úti og norðurhluti Hvalfjarðar og Svínadalur er án rafmagns. Mikil selta og hvassviðri er á svæðinu.
Við tökum fagnandi á móti ábendingum, ljósmyndum, myndböndum og frásögnum af rafmagnsleysinu á ritstjórnarpóstinum okkar (ritstjorn@visir.is).