Innlent

Föstudagslægðin er ekki „Denni dæmalausi“ sem kemur á laugardaginn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Appelsínugul stormviðvörun tekur gildi á föstudaginn
Appelsínugul stormviðvörun tekur gildi á föstudaginn Vísir/Vilhelm

Óveðrið sem von er á á föstudaginn er ekki lægðin „Denni dæmalausi“ eins og sagt hefur verið frá í fjölmiðlum. Denni mætir á svæðið á laugardaginn og mun hafa meiri áhrif á Bretlandi en hér við land.

Þetta sagði Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Blika.is, í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag þar sem hann ræddi um það óveður sem framundan er. Von er á mjög djúpri lægð á föstudaginn hér á landi sem búist er við að muni hafa víðtæk áhrif.

Á sama tíma hafa fjölmiðlar ytra hafa sagt frá því að lægðin Dennis sé á leiðinni og hafa fjölmiðlar hér á landi gripið það á lofti og talað um Denna dæmalausa, eftir vinsælli teiknimyndafígúru.

„Það hefur verið misskilningur með það að Bretar kalli þetta Dennis, Denni dæmalausi, það er hins vegar lægð sem kemur á laugardaginn. Hún verður hérna aðeins frá landinu og veldur meiri usla á Bretlandseyjum. Þess vegna fær hún nafn,“ sagði Einar.

Líkt og sagt hefur frá er von á vonskuveðri á föstudaginn og er appelsínugul viðvörun í gildi á öllu landinu á föstudaginn. Víðtækar samgöngutruflanir eru líklegar og bendir Veðurstofa Íslands fólki á að ganga frá lausum munum og sýna varkárni. Ekkert ferðaveður sé á meðan viðvaranirnar eru í gildi. Það er þó ekki Denna að kenna að sögn Einars, sem kemur sem fyrr segir á laugardaginn.

Almennt er Einar ekki hrifinn af því að lægðir fái nöfn líkt og tíðkast víða í Evrópu.

„Nei, við förum ekki að gefa lægðunum nöfn og alla vega ekki nöfn sem fólk ber líka. Hver vill bera ábyrgð á því að hafa verið lægðin Anna sem gekk hérna yfir og rústaði öllu,“ spurði Einar og sagði veðurfræðinga hér á landi almennt vera sammála um þessa nálgun.

„Við veðurfræðingar hérna erum nokkuð sammála um það að gera það ekki. Þetta er komið úr nafnahefðinni með fellibylina til þess að forðast rugling en svo má gefa þessu nafn eins og Engihjallaveðrið eða Subaru-lægðina og þar fram eftir götunum eftir því hvernig tjónið varð.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×