Íþróttamaðurinn Alex Botelho slasaðist í Portúgal í gær þegar hann lenti í stærðarinnar öldu sem brotnaði yfir honum og þeytti honum langa leið. Hinn portúgalski Botelho var að brimbrettamóti World Surf League í Nazare þegar hann lenti í öldunni og virðist hann hafa misst meðvitund. Hann var fluttur á sjúkrahús og er nú sagður í stöðugu ástandi.
Mótið virkar þannig að keppendur eru dregnir út á haf á sæþotum. Það tókst þó ekki þar sem aldan greip bæði sæþotuna og Botelho og kastaði þeim hátt á loft. Rétt á eftir lenti önnur alda á Botelho og Hugo Vau, sem var á sæþotunni og þeytti þeim langa leið. Vau slasaðist ekki
Myndband af atvikinu sýnir að lýsendur áttuðu sig ekki á því að Botelho hefði slasast.
Í frétt CNN segir að eftir slys Botelho hafi margir kallað eftir því að WSL endurskoði að halda mót í Nazare og á öðrum sambærilegum stöðum. Það sé einungis tímaspursmál hvenær einhver deyi í beinni útsendingu.
Nazare er vinsæll staður þegar kemur að brimbrettaiðkun en öldurnar þar geta verið gríðarlega stórar. Árið 2017 setti Brasilíumaðurinn Rodrigo Koxa heimsmet þegar hann brunaði á öldu sem var 24,38 metra há.