Erlent

Eftir­maður Merkel verður ekki næsti kanslari

Atli Ísleifsson skrifar
Annegret Kramp-Karrenbauer hefur gegnt embætti varnarmálaráðherra Þýskalands síðustu misserin.
Annegret Kramp-Karrenbauer hefur gegnt embætti varnarmálaráðherra Þýskalands síðustu misserin. Getty

Annegret Kramp-Karrenbauer, varnarmálaráðherra Þýskalands og formaður Kristilegra demókrata (CDU), hyggst ekki bjóða sig fram til að taka við embætti kanslara líkt og til stóð, þegar Angela Merkel lætur af embætti á næsta ári.

Frá þessu greindi Kramp-Karrenbauer í morgun. Hún tók við embætti formanns CDU árið 2018, um svipað leyti og Merkel greindi frá því að hún myndi sjálf stíga til hliðar sem kanslari árið 2021.

Þýskir fjölmiðlar segja Kramp-Karrenbauer óvænt hafa greint flokksstjórn frá ákvörðun sinni í morgun. Sagðist hún vera á því að sama manneskja eigi stýra flokknum og gegna embætti kanslara og hafi hún því ákveðið að láta einnig af embætti formanns CDU.

Nýr formaður í sumar

Kramp-Karrenbauer kveðst munu haga málum þannig að nýr leiðtogi flokksins verði valinn í sumar og muni hún þá sjálf láta af embætti formanns. Heimildir DW herma að Merkel vilji að Kramp-Karrenbauer muni þó áfram gegna embætti varnarmálaráðherra.

Annegret Kramp-Karrenbauer hefur verið einn nánasti bandamaður Angelu Merkel kanslara síðustu ár.Getty

Kramp-Karrenbauer var sá innan CDU sem Merkel sá fyrir sér sem arftaki sinn og náði Merkel því í gegn að Kramp-Karrenbauer yrði formaður flokksins í formannskjöri árið 2018. Kramp-Karrenbauer hefur þó átt nokkuð erfitt uppdráttar í formannstíð sinni, þar sem hún hefur þurft að glíma við ýmis hneykslismál.

Deilur í Þýringalandi

Í síðustu viku vakti það mikla hneykslan þegar CDU og þjóðernisflokkurinn Valkostur fyrir Þýskaland (AfD) sameinuðust í stuðningi við fulltrúa FDP sem næsta forsætisráðherra Þýringalands (þ. Thüringen). Þýskir flokkar hafa til þessa sniðgengið og hafnað samstarfi við AfD vegna stefnu þeirra meðal annars í innflytjendamálum og rótum flokksins í hreyfingum nýnasista.

Beindu margir spjótum sínum að Kramp-Karrenbauer og hvernig hún tókst á við málið, þar sem henni mistókst að sameina flokkinn að baki sér. Voru margir sem hunsuðu kröfur hennar um að boðað yrði til nýrra kosninga í Þýringalandi.


Tengdar fréttir

Segir af sér vegna stuðnings öfgaflokks

Leiðtogi Frjálsra demókrata í Þýringalandi, þar sem áður var Austur-Þýskaland, fór í dag fram á nýjar kosningar og sagði af sér sem forsætisráðherra eftir að þingið samþykkti skipan hans óvænt í gær. Stuðningur öfgaþjóðernishyggjuflokksins AfD við skipanina réði úrslitum og vakti afar hörð viðbrögð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×