Gengi hlutabrefa Icelandair Group hefur hríðfallið við opnun markaða í morgun. Um hádegisbilið nam lækkunin tæpum 36 prósentum í átta milljóna króna viðskiptum.
Gengi bréfa í félaginu er nú 1,05 eða rétt yfir væntu útboðsverði í fyrirhuguðu hlutafjárútboði félagsins.
Þegar markaðir lokuðu í gær stóð gengi félagsins í 1,64 en í gærkvöldi tilkynnti félagið að tímalína fyrirhugaðs hlutafjárútboðs hafi verið uppfærð.
Lækkunin í dag er helst rakin til þessarar tilkynningar þar sem fram kom að félagið hyggðist selja nýja hluti í félaginu fyrir 20 milljarða króna að nafnverði á genginu 1 króna á hlut, auk þess sem að heimild væri fyrir því að auka hlutafé um þrjá milljarða til viðbótar, þannig að stærð útboðsins væri 23 milljarðar.
Það sem af líður degi hefur gengið því nálgast þetta fyrirhugaða útboðsverð.
Í tilkynningu Icelandair frá því í gær sagði jafn framt að stefnt væri að því að útboðið færi fram í september, en ekki ágúst eins og áður var gert ráð fyrir.
Þá kom einnig fram að viðræður við íslensk stjórnvöld um lánalínu með ríkisábyrgð, í samvinnu við Íslandsbanka og Landsbankann, séu á lokastigi. Með fyrirvara um samþykki stjórnvalda fyrir slíkri lánalínu geri félagið þannig ráð fyrir að birta fjárfestakynningu með ítarlegum upplýsingum fyrir mögulega fjárfesta og þátttakendur hlutafjárútboðsins á næstu dögum.