Fótbolti

Tvö mörk tekin af Bologna þegar Lazio komst á toppinn í Serie A

Ísak Hallmundarson skrifar
Luis Alberto og Ciro Immobile fagna
Luis Alberto og Ciro Immobile fagna vísir/getty

Lazio er komið á toppinn í ítölsku úrvalsdeildinni eftir 2-0 sigur á Bologna á heimavelli. Tvö mörk voru tekin af Bologna í seinni hálfleik með aðstoð VAR.

Luis Alberto skoraði fyrsta mark leiksins á 18. mínútu eftir stoðsendingu frá Ciro Immobile. Strax þremur mínútum síðar bættu Lazio við öðru marki, þá var það Joaquín Correa sem skoraði eftir stoðsendingu frá Luis Alberto. Staðan í hálfleik var 2-0.

Bologna höfðu ekki heppnina með sér í seinni hálfleik. Þeir virtust vera að minnka muninn í 2-1 þegar Stefano Denswil skoraði, en eftir að markið var skoðað í VAR, var það tekið af vegna hendi í aðdraganda marksins. Aftur virtust Bologna vera að minnka muninn þegar Takehiro Tomiyasu kom boltanum í netið á 67. mínútu, en aftur var myndbandsdómgæslan á ferðinni og dæmdi markið ógilt.

Mörkin urðu ekki fleiri og lokatölur 2-0 sigur heimamanna í Lazio sem fara með sigrinum upp fyrir Juventus á topp deildarinnar. Juventus á þó leik til góða gegn Internazionale, en þeim leik var í dag frestað fram í maí.

Sveinn Aron Guðjohnsen sat allan tímann á varamannabekknum þegar Spezia laut í lægra haldi gegn toppliði Benevento í ítölsku b-deildinni. Lokatölur 3-1 fyrir Benevento, en Spezia spilaði manni færri frá 30. mínútu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×