Enski boltinn

Norwich heldur í vonina eftir óvæntan sigur á Leicester

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Leicestar niðurlútir eftir að Norwich skoraði.
Leikmenn Leicestar niðurlútir eftir að Norwich skoraði. Vísir/Getty

Norwich City heldur í vonina um að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni eftir mjög svo óvæntan 1-0 sigur á Leicester City í kvöld.

Fyrir leik kvöldsins á Carrow Road, heimavelli Norwich, reiknuðu flestir með sigri gestanna þó svo að Jaime Vardy væri fjarverandi. Leikurinn var ekki mikið fyrir augað og var staðan markalaus þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik. 

Síðari hálfleikur var skömminni skárri en Jamal Lewis kom heimamönnum yfir á 70. mínútu og reyndist það eina mark leiksins. Allavega eina löglega mark leiksins en Kelechi Iheanacho hélt hann hefði komið gestunum yfir áður en Lewis skoraði. Eftir að markið hafði verið skoðað kom í ljós að knötturinn snerti hönd Iheanacho í aðdragandanum og  markið því dæmt af.

Lokatölur 1-0 Norwich í vil sem er nú komið með 21 stig, aðeins fjórum stigum frá öruggu sæti en liðið er þó enn í botnsæti ensku úrvalsdeildarinnar. Leicester er sem fyrr í 3. sæti deildarinnar en nú aðeins sex stigum á undan Chelsea sem er í 4. sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×