Fótbolti

Íslensku fótboltalandsliðin kveðja Errea búningana í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í Errea búningi íslenska landsliðsins á HM í Rússlandi 2018.
Gylfi Þór Sigurðsson í Errea búningi íslenska landsliðsins á HM í Rússlandi 2018. Getty/ Jan Kruger

Íslensku fótboltalandsliðin munu leika sína síðustu leiki í Errea búningum á þessu ári en Knattspyrnusamband Íslands er búið að gera samning við annan íþróttavöruframleiðanda.

Fótbolti.net segir frá þessu og hefur heimildir fyrir því að íslensku landsliðin muni skipta yfir í Puma búninga eftir Evrópumótið í sumar.

Íslensku landsliðin hafa spilað í Errea búningum frá árinu 2002 og er því átján ára samstarfi að ljúka. Errea er ítalskur íþróttavöruframleiðandi en hann hefur komið fram með glænýja búninga landsliðsins fyrir bæði stórmót liðsins á síðustu árum.

„Við erum samningsbundnir Errea út júní 2020 og það er ekkert í spilunum að það breytist. En við erum búin að gera nýjan búningasamning sem tekur við af þeim samningi," sagði Stefán Gunnarsson, markaðsstjóri KSÍ, í samtali við fótbolta.net.

Íslenska fótboltalandsliðið hefur ekki spilað í Puma búningum áður en liðið hefur meðal annars verið í Umbro (1975), Adidas (1976-91), ABM (1992-96) og Reusch (1996-2001) búningum.

„Við erum samningsbundnir Errea út júní 2020 og það er ekkert í spilunum að það breytist. En við erum búin að gera nýjan búningasamning sem tekur við af þeim samningi," segir Stefán í samtali við fótbolta.net.

Nýtt landsliðsmerki verður enn fremur kynnt eftir umspilsleikina í mars en það verður annað merki en kynnt var sem nýtt merki Knattspyrnusambandsins á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×