Fótbolti

Átján ára íslenskur strákur í hóp í Seríu A á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Fannar Baldursson hefur leikið 34 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands.
Andri Fannar Baldursson hefur leikið 34 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands. Getty/Seb Daly

Andri Fannar Baldursson verður í hópnum hjá Bologna í ítölsku deildinni um helgina.

Bologna mætir þá Udinese í Seríu A á morgun en leikurinn er í 25. umferð deildarkeppninnar.

Sinisa Mihajlovic, knattspyrnustjóri Bologna hefur ákveðið að velja íslenska miðjumanninn í hóp sinn fyrir leikinn eins og sjá má hér fyrir neðan. Andri Fannar er einn af 21 leikmanni sem Sinisa getur valið úr á morgun.



Þetta er aðeins í annað skiptið sem Andri Fannar Baldursson er í hóp hjá Bologna en hann var einnig ónotaður varamaður í 2-1 sigri liðsins á Sampdoria í lok október.

Andri Fannar Baldursson er aðeins nýorðinn átján ára en hann fæddist 10. janúar 2002.

Andri Fannar er uppalinn í Breiðabliki en hann fór fyrst út til ítalska félagsins í janúar í fyrra.

Besta staða Andra Fannars er á miðri miðjunni en hann getur líka spilað sem sóknartengiliður og varnartengiliður.

Andri Fannar Baldursson hefur mikla reynslu með unglingalandsliðum Íslands en hann hefur alls spilað 34 landsleiki fyrir yngri landsliðin og skorað í þeim 4 mörk.

Bologna liðið er í tíunda sæti ítölsku deildarinnar eftir 24 fyrstu umferðirnar en liðið er þó aðeins tveimur stigum frá sjötta sætinu sem gefur sæti í Evrópukeppni á næstu leiktíð.

Bologna tapaði síðasta leik en hafði þar á undan unnið þrjá leiki í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×