Erlent

Árásarmaðurinn fannst látinn á heimili sínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan segir ekkert útlit fyrir að árásarmaðurinn hafi átt sér samverkamann eða menn en málið sé þó enn til rannsóknar.
Lögreglan segir ekkert útlit fyrir að árásarmaðurinn hafi átt sér samverkamann eða menn en málið sé þó enn til rannsóknar. EPA/ARMANDO BABANI

Minnst tíu eru látnir eftir tvær skotárásir á vatnspípubari í Hanau í Þýskalandi í gærkvöldi. Fjórir eru særðir. Árásarmaðurinn hóf skothríð um klukkan tíu að staðartíma í gærkvöldi og náði að flýja af vettvangi. Hann fannst svo látinn heima hjá sér sjö klukkustundum seinna ásamt öðru líki.

Lögreglan segir ekkert útlit fyrir að árásarmaðurinn hafi átt sér samverkamann eða menn en málið sé þó enn til rannsóknar.

Eins og áður segir hófst skothríðin um klukkan tíu. Þá skaut hann á vatnspípubar í miðbæ Hanau og dóu þrír þar. Eftir það keyrði hann að öðrum bar í öðru hverfi og skaut þar fimm til bana. Seinna dó einn hinna særðu af sárum sínum.

Eftir umfangsmikla leit fannst árásarmaðurinn svo látinn á heimili sínu og þar fannst annað lík einnig. Heildartala látinna er því tíu, eða ellefu að árásarmanninum meðtöldum.

Tilefni árásanna liggur ekki fyrir en Bild segir árásarmanninn hafa skilið eftir sig bæði bréf og myndband. Hann er sagður hafa verið þýskur og með skotvopnaleyfi. Þá segir fjölmiðillinn að skotfæri hafi fundist í bíl hans.


Tengdar fréttir

Átta sagðir látnir eftir skotárás í Þýskalandi

Árásin er sögð hafa átt sér stað á vatnspípubar í miðborginni. Óstaðfestir fregnir herma að byssumaður eða menn hafi farið á milli tveggja slíkra bara og skotið á fólk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×