Lífið

Leikarinn Ben Cross er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Ben Cross í London árið 2010.
Ben Cross í London árið 2010. Getty

Enski leikarinn Ben Cross, sem þekktastur er fyrir að leika hlauparann Harold Abrahams í Óskarsverðlaunamyndinni Chariots of Fire, er látinn, 72 ára að aldri.

BBC segir hann hafa andast „skyndilega“ eftir stutt veikindi. Hann lést í Vínarborg í Austurríki.

Ben Cross í hlutverki Harold Abrahams í myndinni Chariots of Fire.Getty

Dóttir Cross, Lauren, segir í færslu á Facebook að hún sé miður sín vegna andláts „elsku föður“ síns. Hann hafi verið veikur í nokkurn tíma, en að heilsu hans hafi svo hrakað mikið síðustu vikuna.

Cross hafði nýverið lokið við tökur á hryllingsmyndinni The Devil‘s Light og þá mun hann birtast í einu aðalhlutverka rómantískrar myndar, Last Letter from Your Lover síðar á þessu ári.

Cross nam leiklist í Royal Academy of Dramatic Arts (Rada) og tók að sér fyrsta kvikmyndahlutverk sitt í myndinni A Bridge Too Far árið 1977 eftir að hafa áður starfað mest í leikhúsi. Í þeirri mynd lék hann á móti Sir Sean Connery og Sir Michael Caine.

Cross fór með hlutverk gyðingsins Harold Abrahams í Chariots of Fire sem frumsýnd var árið 1981 og fjallaði um sögu tveggja breskra hlaupara sem keppa á Ólympíuleikum árið 1924. Var myndin vala besta mynd ársins á Óskarsverðlaunahátíðinni.

Meðal annarra hlutverka Cross má nefna Malagant í myndinni First Knight frá árinu 1995 og Sarek í Star Trek árið 2009. Þá fór hann með hlutverk Rudolf Hess í framleiðslu BBC frá árinu 2006, Nuremberg: Nazis on Trial.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.