Skoðun

Þreytandi mas um þjóðar­eign

Hanna Katrín Friðriksson skrifar

Mikið gladdi það mig að sjá grein Brynjars Níelssonar hér á Vísi gær; að átta mig á því að ástæða þess að þingmaðurinn rígheldur enn í stuðning sinn við gamaldags og ósanngjarnt kerfi er sú að hann heldur að ekkert annað sé í boði.

Þingmaðurinn segir í grein sinni að stjórnarandstaðan ali á öfund með sífelldu masi um að þjóðin fái ekki réttláta hlutdeild af sjávarauðlindinni án þess að koma með tillögur að betra kerfi. Ég veit að tuðið í stjórnarandstöðunni getur verið óttalega þreytandi. Sérstaklega þegar boðin að ofan eru þau að stjórnarþingmenn eigi alls ekki að taka undir eða samþykkja nokkuð sem þaðan kemur. En mér er samt bæði ljúft og skylt að benda Brynjari á nokkuð sem hefur greinilega farið fram hjá honum í þingstörfunum síðustu ár.

Frá því að Viðreisn flaug inn á þing haustið 2016 höfum við verið óþreytandi að tala fyrir breytingum á fyrirkomulagi gjaldtöku fyrir afnot af sjávarauðlindinni, fyrir opnara aflahlutdeildarkerfi. Nefnd sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, setti á laggirnar sem sjávarútvegsráðherra til að freista þess að ná samkomulagi á þingi um þessi mál, náði þeim árangri á sínum stutta starfstíma að fulltrúar allra flokka í nefndinni nema Sjálfstæðisflokks lýstu stuðningi við það grundvallarsjónarmið​ ​að​ ​gjaldtaka​ ​skyldi​ ​miðast​ ​við​ ​tímabundin​ ​afnot​ ​af​ ​fiskveiðiauðlindinni. Það er forsenda þess að tryggja sam­eign þjóð­ar­innar og koma í veg fyrir að ævar­andi eign­ar­réttur útgerð­ar­innar festist í sessi. Tíma­bundnir samn­ingar eru líka nauð­syn­legir til að tryggja rekstrarlegt öryggi útgerð­ar­fyr­ir­tækja með sann­gjörnum hætti og til að eyða laga­legri óvissu.

Þegar þetta tímabundna auðlindaákvæði verður fest í sessi, því það mun gerast, þá tökum við næsta skref. Það felst í því að ná samstöðu um hversu stór hluti kvótans verður settur á markað hverju sinni, en eins og augljóst má vera, þá er sala á opnum markaði leiðin sem best endurspeglar arðsemi nýtingar auðlindarinnar á hverjum tíma. Núverandi gjaldtöku yrði sem sagt hætt, en í stað þess yrðu lausir samningar seldir á markaði. Þetta síðastnefnda mætir reyndar andstöðu í Sjálfstæðisflokknum líka, eins merkilegt og það nú er, að flokkur sem vill láta kenna sig við frjáls markaðsviðskipti, hafnar akkúrat þessu frelsi þegar það skiptir mestu fyrir almannahag.

Það er full ástæða til að taka brýningu Brynjars alvarlega. Við þurfum greinilega að masa meira á þingi svo skilaboðin nái daufum eyrum stjórnarþingmanna.

Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar.




Skoðun

Sjá meira


×