Fótbolti

Liðsfélagi Birkis vill algjört fótboltahlé | Fæ ekki að sjá börnin mín út af þessari veiru

Sindri Sverrisson skrifar
Birkir Bjarnason og Mario Balotelli hafa verið liðsfélagar hjá Brescia síðan í janúar.
Birkir Bjarnason og Mario Balotelli hafa verið liðsfélagar hjá Brescia síðan í janúar. vísir/getty

Ítalski knattspyrnumaðurinn Mario Balotelli, liðsfélagi Birkis Bjarnasonar hjá Brescia, segir ekki nóg að leikir á Ítalíu verði spilaðir fyrir luktum dyrum vegna kórónuveirunnar. Gera ætti algjört hlé á fótboltaiðkun í landinu.

Balotelli, Birki og félögum í Brescia er líkt og fleiri íbúum Langbarðalands á Norður-Ítalíu haldið í hálfgerðri gíslingu vegna veirunnar. Bendir Balotelli á að hann hafi undanfarið ekki fengið að sjá börnin sín, sem búa utan Langbarðalands. Í nótt var sett á strangt ferðabann fyrir íbúa alls héraðsins og fleiri svæða í kring, en þó á að spila í ítölsku A-deildinni í fótbolta fyrir luktum dyrum í dag þar sem stórleik Juventus og Inter ber hæst. Á morgun mætir Brescia liði Sassuolo á útivelli.

„Peningar eru ekki mikilvægari en heilsa fólks. Við verðum að vakna,“ segir Balotelli sem tekur undir með leikmannasamtökunum á Ítalíu en þau vilja að ekki verði spilaður fótbolti á Ítalíu fyrr en að tekist hefur að ná tökum á útbreiðslu veirunnar.

Tæplega 6.000 manns hafa greinst með kórónuveiruna á Ítalíu og yfir 230 manns látist.

Fótbolti hefur gefið mér allt en ég vil ekki hætta á að mamma veikist
Mario Balotelli er óttasleginn vegna kórónuveirunnar.

Balotelli birtir á samfélagsmiðlum yfirlýsingu frá leikmannasamtökunum og segist taka heils hugar undir hana.

„Ekki skrifa eitthvað kjaftæði eins og: „En þú ert verndaður! Hvaða máli skiptir hvort þú spilar eða ekki? Það kemur ekkert fyrir þig ef þetta er fyrir luktum dyrum! Ekki taka í burtu eina fjörið sem fólk á hættusvæðum getur fengið núna um helgina!““ skrifar Balotelli.

„ÉG ELSKA FÓTBOLTA MEIRA EN ÞIÐ... en það að spila þýðir að við þurfum að ferðast með rútum, lestum, flugvélum, gista á hótelum, og þannig vera í snertingu við fólk utan okkar hóps... Staðan er nú þegar þannig að ég fæ ekki að sjá börnin mín út af þessari bölvuðu kórónuveiru því eins og þið vitið þá búa þau ekki í Lombardia svo þetta er nú þegar mjög svekkjandi og sorglegt,“ skrifar Balotelli, og bætir við:

„Ég vil svo sannarlega ekki að mamma mín, sem ég hitti og snæði með á næstum hverjum degi, smitist af einhverju í gegnum mig. Hún er ekki á sama aldri og ég og eins mikið og ég elska fótbolta [sem hefur gefið mér allt], þá hætti ég ekki á að hún veikist! Af hverju ætti ég að gera það? Til að skemmta öðrum? Eða til að koma í veg fyrir að þeir tapi peningum? Ekki láta eins og vitleysingar! Takið ykkur taki, við höfum fengið nóg. Það er ekki hægt að grínast með heilsuna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×