Forsetahjónin íslensku, þau Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid, voru viðstödd opnun nýrrar skrifstofu íslenska fjártæknifyrirtækisins Meniga í pólsku höfuðborginni Varsjá í gær. Það féll í þeirra skaut að opna skrifstofuna formlega en þau eru nú í opinberri heimsókn í Póllandi.
Meniga hefur verið með skrifstofu í Póllandi síðan í september 2017 en starfsmannafjöldinn hefur tvöfaldast á þeim tíma. Samkvæmt upplýsingum frá Meninga munu starfa um 45 á nýju skrifstofunni í Varsjá og er því orðin næst stærsta skrifstofa Meniga á eftir þeirri íslensku.
Auk Íslands og Póllands er Meniga með útibú í Stokkhólmi, Lundúnum, Barcelona og Singapúr. Starfsmenn fyrirtækisins eru um 160 í dag.
Í Varsjá í gær voru auk forsetahjónanna þeir Viggó og Ásgeir Örn Ásgeirssynir, tveir af þremur stofnendum Meniga. Það verður þó í verkahring Pawel Rządziński að stýra núverandi og komandi verkefnum fyrirtækisins á þessu svæði.