Vopnaður maður hefur tekið tugi í gíslingu í verslunarmiðstöð í Manila í Filippseyjum. Lögreglan hefur umkringt verslunarmiðstöðina og var það gert eftir að gíslatökumaðurinn, sem er fyrrverandi öryggisvörður í verslunarmiðstöðinni, hóf þar skothríð. Minnst einn hefur verið skotinn en sá er í stöðugu ástandi.
Francis Zamora, borgarstjóri Manila, sagði sérfræðinga lögreglunnar eiga í viðræðum við öryggisvörðinn fyrrverandi, sem er reiður yfir því að hafa verið rekinn nýverið. Zamora segir ennfremur að maðurinn hafi reynt að fá aðra öryggisverði með sér í lið. Hann hefur krafist þess að fá að ræða við fyrrverandi samstarfsmenn sína og fjölmiðla.
New York Times segir talið að gíslarnir séu um 30 og er þeim haldið í skrifstofum verslunarmiðstöðvarinnar. Auk þess að vera vopnaður byssu segist maðurinn einnig vera með handsprengju. Það hefur þó ekki verið staðfest.
Verslunarmiðstöðin sem um ræðir er í hverfi auðugra og er vinsæl meðal íbúa. Þá er hún mjög nærri höfuðstöðvum lögreglunnar í Manila.
VIDEO: Police respond to mass hostage-taking at Manila mall.
— AFP news agency (@AFP) March 2, 2020
Heavily armed police are in a standoff with a disgruntled former security guard who has taken at least 30 people hostage in a Philippines shopping mall pic.twitter.com/1L1kTAgBjG