Íslenski boltinn

„Dæmigert fyrir sumarið hjá okkur“

Sindri Sverrisson skrifar
Ásmundur Arnarsson með aðstoðarmönnum sínum.
Ásmundur Arnarsson með aðstoðarmönnum sínum. mynd/fjölnir

„Með svona frammistöðu koma fleiri stig,“ segir Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, en liðið gerði 1-1 jafntefli við Víking R. í Grafarvogi í kvöld eftir að hafa verið yfir drjúgan hluta leiksins.

Liðin áttust við í Pepsi Max-deild karla í fótbolta en Fjölnismenn eru enn á botni deildarinnar, nú með fjögur stig, og þeir þurfa enn að bíða eftir fyrsta sigrinum. Jöfnunarmark Víkinga kom á 86. mínútu.

„Við erum eins og oft svekktir með lokaniðurstöðuna en þetta var frábær frammistaða heilt yfir. Þetta var gott svar við síðasta leik, þar sem við vorum mjög óánægðir með okkur. Við leiddum leikinn lengst af, og nánast alveg til loka, en það er kannski dæmigert fyrir sumarið hjá okkur að markið sem þeir skora er í ódýrari kantinum. Boltinn var á leið út af, það hættu allir, en það kom snúningur á hann og auðvelt mark í framhaldi af því,“ segir Ásmundur.

„Með svona frammistöðu koma fleiri stig. Þetta er eitthvað sem við getum byggt ofan á. Þetta er fyrsta stigið okkar á heimavelli í sumar og það langlengsta sem við höfum verið yfir í leik,“ segir Ásmundur.

Eitt atvik sem veldur því að við fáum ekki þrjú stig

Lið sem hefur ekki fagnað sigri í deildarleik síðan á síðasta ári hlýtur að vera farið að finna aðeins fyrir því. Vantaði sjálfstraust til að klára dæmið þegar Víkingar fóru að pressa á lokakaflanum?

„Já, kannski. Alla vega fóru menn svolítið að verja stöðuna og féllu fullaftarlega. Það þarf að halda sjó þegar það er búið að ganga illa í langan tíma, langt liðið frá sigri, og þegar menn sjá að það sé að fara að gerast þá verða þeir kannski aðeins of hikandi. Það er bara eitt atvik sem verður til þess að við fáum eitt stig en ekki þrjú.“

Sigurpáll Melberg Pálsson fór meiddur af velli eftir fyrri hálfleik og Ásmundur sagði frá því fyrir leik að Torfi Tímoteus Gunnarsson hefði verið meira og minna meiddur í allt sumar, og að ekki væri von á honum fyrr en eftir landsleikjahléið í september. Fjölnir missti báða aðalmiðverði sína frá síðasta tímabili.

„Örvar [Eggertsson, sem kom frá Víkingi] mátti ekki spila í kvöld svo hann kemur alla vega inn í næsta leik. Við eigum menn til að spila,“ segir Ásmundur um ástandið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×