Erlent

„Ég verð bandamaður ljóssins, ekki myrkursins“

Samúel Karl Ólason skrifar
Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins.
Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins. AP/Andrew Harnik

Joe Biden tók formlega við tilnefningu Demókrataflokksins til forsetaframboðs í nótt. Í ræðu sinni hét hann því að bjarga Bandaríkjunum frá usla forsetatíðar Donald Trump og koma landinu aftur í þá leiðtogastöðu sem það hefur verið í á heimsvísu.

Biden kallaði eftir því að Bandaríkjamenn kæmu saman og sigruðust í sameiningu á Trump, án þess þó að nefna hann einu sinni á nafn.

„Núverandi forseti hefur baðað Bandaríkin í myrkri of lengi. Of mikil reiði, of mikill ótti, of mikil sundrung,“ sagði Biden. „Hér og nú, heiti ég því: Ef þið færið mér forsetaembætti, mun ég draga fram það besta í okkur, ekki það versta. Ég verð bandamaður ljóssins, ekki myrkursins.“

Biden gagnrýndi Trump harðlega fyrir að neita að taka ábyrgð á gjörðum sínum og sagði hann neita að leiða þjóðina.

„Hann vaknar á hverjum deyi í þeirri trú að starfið snúist eingöngu um hann sjálfan. Aldrei um ykkur,“ sagði Biden og benti á myndavélina. Alla ræðu hans má sjá hér.

Þetta hefur verið rauði þráðurinn í gegnum alla ræðurnar á landsfundi Demókrata. Það að kosningarnar í nóvember snúist um sál Bandaríkjanna og lýðræðið sjálft sé í húfi.

Sjá einnig: Helltu sér yfir Trump og hvöttu fólk til að kjósa

Auk Biden fluttu aðrir forsetaframbjóðendur flokksins, sem töpuðu fyrir Biden í forvali, einnig ræður. Þeirra á meðal voru Cory Booker og Pete Buttigieg. Allir mótframbjóðendur Biden í Demókrataflokknum lýstu einnig yfir stuðningi við hann.

Innan um ræðurnar fluttu þeir John Legend og Common lagið Glory.

Grínistinn Sarah Cooper gerði svo léttvægt grín að Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×