Erlent

Þýska­land lokar landa­mærunum að stærstum hluta á mánu­dag

Atli Ísleifsson skrifar
Þeir sem halda yfir landamærin vegna vinnu verður þó áfram heimilt að fara yfir landamærin.
Þeir sem halda yfir landamærin vegna vinnu verður þó áfram heimilt að fara yfir landamærin. Getty
Stjórnvöld í Þýskalandi hafa tilkynnt að landamærum ríkisins að Frakklandi, Sviss og Austurríki verði að stærstum hluta lokað á morgun, mánudag. Er það gert til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar.

Í frétt BBC segir að þeir sem halda yfir landamærin vegna vinnu verði þó áfram heimilt að fara á milli.

Önnur aðildarríki ESB hafa gripið til róttækra aðgerða að undanförnu til að stemma stigu við útbreiðslunni. Þannig hafa stjórnvöld í Austurríki bannað samkomur með fimm manns eða fleiri.

Stjórnvöld í Rúmeníu hafa lýst yfir neyðarástandi og þá hafa tékknesk stjórnvöld, sem hafa nú þegar lokað landamærum sínum, lýst því yfir að mögulega verði allir skikkaðir í sóttkví.

Tilkynningarnar koma í kjölfar aðgerða franskra og spænskra stjórnvalda í gær. Á Spáni hefur verið tilkynnt 97 tilvik þar sem fólk hefur látist af völdum veirunnar síðasta sólarhringinn og þá hefur verið tilkynnt um tvö þúsund ný smit á sama tímabili. Alls hafa 388 manns látist á Spáni af völdum veirunnar og telja smitin um átta þúsund. Í Frakklandi hafa fengist staðfest 4.500 smit og 91 dauðsföll.

Í Evrópu er ástandið sem verst á Ítalíu þar sem 1.441 manns hafa látist og 21.157 smitast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×