Það var nokkuð um óvænt úrslit í Lengjudeildinni í dag en alls er nú þremur leikjum lokið. Magni og ÍBV gerðu markalaust jafntefli, Fram vann Leikni F. á útivelli og Grindavík vann Þór Akureyri.
Botnlið Magna á Grenivík náði í óvænt stig gegn ÍBV en Eyjamenn hafa ekki enn tapað leik í deildinni og voru í 2. sæti fyrir leik dagsins. Magni var aðeins með eitt stig og því koma úrslitin verulega á óvart.
Er þetta fimmta jafntefli ÍBV í 11 leikjum í sumar.
Í Grindavík voru Þórsarar frá Akureyri í heimsókn og tókst heimamönnum að halda í stigin þrjú eftir að Alexander Veigar Þórarinsson kom þeim yfir eftir rúman hálftíma leik. Þá voru Gridvíkingar þegar orðnir manni færri en Gunnar Þorsteinsson sá rautt eftir tíu mínútur.
Í upphafi síðari hálfleiks sá Oddur Ingi Bjarnason rautt en samt sem áður náðu Þórsarar ekki að jafna metin. Ótrúlegur sigur Grindvíkinga sem þýðir að liðið er nú komið í 6. sæti með 17 stig, jafn mörg og Þór sem er sæti ofar.
Að lokum vann Fram góðan sigur á Leikni Fáskrúðsfirði inn í Fjarðabyggðarhöllinni. Gestirnir komust í 3-0 þökk sé mörkum Þóris Guðjónssonar, Alexanders Már Þorvaldssonar og Tryggva Snæ Geirssonar.
Í uppbótartíma varð Matthías Króknes Jóhannsson fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Skömmu síðar skoraði Jesus Maria Meneses Sabater og lauk leiknum því með 3-2 sigri Fram.
Fram fer þar með upp fyrir ÍBV í töflunni en liðið er nú með 24 stig í 2. sæti deildarinnar eftir 11 umferðir. ÍBV er stigi neðar í 3. sætinu. Leiknir F. er í 9. sæti með 11 stig.