Um er að ræða stærsta sigurinn á sviði lýðheilsu í Afríku frá því að tókst að útrýma bólusótt. Þannig lýsir Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) því að nú hafi tekist að útrýma mænusótt í öllum ríkjum Afríku.
Erlendir fjölmiðlar segja frá því að WHO muni í dag greina frá þessum tímamótum, 32 árum eftir að alþjóðleg barátta stofnunarinnar gegn sjúkdómnum í álfunni hófst.
„Síðasta skrefið var að fara í gegnum uppfærðar ársskýrslur frá öllum ríkjum Afríku, og það gerðist í síðustu viku. Nú getum við greint frá því, svo öruggt sé, að búið er að útrýma mænusótt í Afríku,“ segir Abdelhalim Abdallah, upplýsingafulltrúi WHO í Brazzaville í Vestur-Kongó.
Í raun má segja að álfan hafi verið laus við mænusótt frá í ágúst 2016, þegar síðasta tilfelli sjúkdómsins kom upp í norðurhluta Nígeríu. En WHO getur fyrst nú fullyrt að ekki sé um landlæga útbreiðslu að ræða.
Á vef embættis landlæknis segir að mænusótt, sem einnig nefnist lömunarveiki eða polio, sé smitsjúkdómur af völdum veiru sem geti leggst á taugakerfi líkamans og valdið lömun sem leitt getur til dauða. „Þeir sem eru í mestri hættu á að veikjast af sjúkdómnum eru nýburar, ung börn og óbólusettir einstaklingar. Hættan á að lamast af völdum sjúkdómsins eykst með hækkuðum aldri.“