Íslenski boltinn

Eyjamenn eru mikið bikarlið: Í níunda sinn í átta liða úrslitunum á tíu árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óskar Elías Zoega Óskarsson og félagar í Eyjaliðinu þekkja það vel að spila marga bikarleiki á sumri.
Óskar Elías Zoega Óskarsson og félagar í Eyjaliðinu þekkja það vel að spila marga bikarleiki á sumri. Vísir/Daníel Þór

Lengjudeildarliðin ÍBV og Fram mætast í kvöld í fyrsta leik átta liða úrslita Mjólkurbikars karla í knattspyrnu en í boði er sæti í undanúrslitum sem væri frábær árangur hjá b-deildarliði.

Leikurinn hefst klukkan 17.15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3. Það er að koma september og því þarf að byrja leikinn svo snemma því það fer að dimma fyrr á kvöld.

Eyjamenn og Framarar eru í toppbarráttu Lengjudeildarinnar og að berjast um sæti í Pepsi Max deildinni 2021.

Framarar komust upp fyrir Eyjamenn með sigri á Leikni F. í síðustu umferð en það munar bara einu stigi á liðunum.

Það er von á góðu ef marka má deildarleik liðanna á dögunum en liðin gerðu þá 4-4 jafntefli í Safarmýrinni í ótrúlegum leik þar sem Eyjamenn komust yfir í 1-0, 2-1 og 4-2. Aron Snær Ingason tryggði Framliðinu jafntefli í uppbótatíma.

Mörk ÍBV í leiknum skoruðu Tómas Bent Magnússon, Felix Örn Friðriksson og Gary John Martin en fjórða markið var sjálfsmark. Eyjamenn skoruðu líka sjálfsmark en hin mörk Fram skoruðu Aron Snær, Þórir Guðjónsson og Tryggvi Snær Geirsson.

Eyjamenn eru mikið bikarlið og fóru síðasta alla leið í bikarúrslitaleikinn árin 2016 og 2017. ÍBV vann bikarinn seinna árið.

Eyjamenn hafa líka nánast verið fastagestir í átta liða úrslitum bikarkeppninnar undanfarin ár. Leikurinn í kvöld verður níundi leikur Eyjaliðsins í átta liða úrslitum á síðustu tíu árum.

Framarar eru eftir á móti að spila sinn fyrsta leik í átta liða úrslitunum síðan sumarið 2016 þegar liðið datt út á móti Selfossi.

ÍBV í átta liða úrslitunum undanfarin áratug

  • 2020 - Leikur við Fram í kvöld
  • 2019 - Tap á móti Víkingi R. á heimavelli (2-3)
  • 2018 - Duttu út í 16 liða
  • 2017 - Sigur á Víkingi R. á útivelli (2-1)
  • 2016 - Sigur á Breiðabliki á útivelli (3-2)
  • 2015 - Sigur á Fylki á heimavelli (4-0)
  • 2014 - Sigur á Þrótti R á útivelli (1-0)
  • 2013 - Tap á móti KR á heimavelli (0-3)
  • 2012 - Tap á móti KR á heimavelli (1-2)
  • 2011 - Sigur á Fjölni á útivelli (2-1)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×