Erlent

Baðst afsökunar á ummælum um blóðvökvameðferð

Samúel Karl Ólason skrifar
Stephen Hahn, yfirmaður Lyfjaeftirlits Bandaríkjanna, og Donald Trump, forseti.
Stephen Hahn, yfirmaður Lyfjaeftirlits Bandaríkjanna, og Donald Trump, forseti. AP/Alex Brandon

Stephen Hahn, yfirmaður Lyfjaeftirlits Bandaríkjanna (FDA) hefur beðist afsökunar á því að hafa talað of frjálslega um kosti blóðvökva þeirra sem hafa jafnað sig af Covid-19. Læknar höfðu brugðist reiðir við yfirlýsingum Hahn, sem hann varpaði fram í kjölfar þess að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sakaði „djúpríkið, eða einhverja“ hjá FDA um að standa í vegi fyrir samþykki blóðvökvameðferðar og annarra lyfja gegn Covid-19.

Það segir Trump að djúpríkið sé að gera til að koma niður á honum fyrir forsetakosningarnar í nóvember.

Forsetinn tilkynnti svo í gær að FDA hefði samþykkt meðferðir í neyðaryfirlýsingu. Hann sagði það um sögulegar framfarir væri að ræða.

Hahn sagði svo að rúmlega 35 manns af hundrað myndu lifa af ef þau fengu blóðvökvameðferð. Sú yfirlýsing ýkir verulega kosti rannsókna, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Vísbendingar eru um að blóðvökvameðferð geti hjálpað þeim sem smitast hafa af Covid-19 en sérfræðingar segja það þó langt frá því að vera fullljóst. Hahn hefur verið gagnrýndur fyrir að láta eftir Trump í pólitískum tilgangi og grafa undan trúverðugleika FDA.

Hahn var einnig gagnrýndur fyrir að varpa ummælum sínum um meðferðina fram í aðdraganda landsfundar Repúblikanaflokksins svo yfirlýsingin féll eins og flís við rass í kosningabaráttu Trump.

Hann segir ákvörðunina þó hafa verið tekna af sjálfstæðum hætti af vísindamönnum og sérfræðingum Lyfjaeftirlitsins. Hann mótmælti ekki yfirlýsingum Trump um að þróun blóðvökvameðferðar væri söguleg og að starfsmenn FDA væru að vinna gegn forsetanum.

Ríkisstjórn Trump hefur lagt mikla áherslu á þróun og vonast Trump-liðar til þess að skjótur árangur gæti nýst honum í baráttunni um endurkjör. Viðmælendur AP segja þó ljóst að ummæli Trump um Lyfjaeftirlitið vinni gegn trúverðugleika stofnunarinnar, þegar þörf sé á því að sem flestir treysti henni.

Þegar öruggt bóluefni líti dagsins ljóst þurfi sem flestir að taka það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×