Lífið

„Núna er þetta fullkomið“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ása og Hörður eignuðust barn í sumar eftir langa bið.
Ása og Hörður eignuðust barn í sumar eftir langa bið. Mynd/Ísland í dag

Þegar Ísland í dag hitti Ásu Huldu Oddsdóttur og Hörð Þór Jóhannsson fyrir rúmu ári, voru þau glíma við ófrjósemi. Þau þráðu ekkert heitar en að eignast barn og nú rúmu ári seinna hefur draumur þeirra loksins ræst. Ísland í dag heimsótti þau aftur og fékk að heyra hvernig síðustu mánuðir hafa verið en innslagið í heild sinni má finna hér neðar í fréttinni.

Ása og Hörður kynntust fyrst í menntaskóla, fóru svo bæði í háskólanám, fjárfestu í draumaíbúðinni og giftu sig. Allt gekk vel en Ása og Hörður höfðu reynt í nokkur ár að eignast barn án árangurs. Kom í ljós að hún var með bæði endómetríósu og PCOS eða fjölblöðrueggjastokkaheilkenni og fór því í lyfjagjöf. Þau voru einnig byrjuð að íhuga tæknifrjóvgun og ættleiðingu.

Ása þurfti að fara í aðgerð til þess að láta laga blæðingar og fjarlægja samgróninga vegna endómetríósu.Mynd úr einkasafni

Erfitt að lýsa hamingjunni

Fyrir rúmu ári áttu þau erfitt með að fara í barnaafmæli og sjá barnamyndir á samfélagsmiðlum, það var einfaldlega of sárt. Óteljandi neikvæð óléttupróf og stöðug vonbrigði höfðu áhrif, auk verkjanna sem fylgdu endómetríósunni.

„Þetta er erfitt. Bæði allar aukaverkanir líkamlega, ég er með rosalega mikla ógleði, magaverkir og krampar. Ég er alltaf þreytt og svo er það andlegi parturinn líka. Hann er eiginlega erfiðari,“ sagði Ása í viðtalinu fyrir ári. Þau reyndu að vera bjartsýn en óttuðust samt á sama tíma að fá aldrei tækifærið til þess að verða foreldrar.

„Hræðslan er hvort þetta muni aldrei virka hjá okkur. Sama hvað við reynum, hvort þetta muni aldrei heppnast.“

En nú er staðan gjörbreytt.

„Öll þessi þrjóska, fjöldinn allur af mismunandi hormóna töflum, aukaverkanir og vanlíðanin sem fylgdi öllu þessu ferli skilaði sér að lokum. Ég get ekki lýst því hversu hamingjusöm við vorum þegar við sáum loksins fyrsta jákvæða þungunarprófið í október 2019, eftir allan þennan fjölda af neikvæðum prófum og gráti,“ skrifaði Ása á Instagram þegar hún tilkynnti þessar gleðifréttir.

Hamingjusamir verðandi foreldrarMynd úr einkasafni

Gerði þau sterkari

Hjónin eignuðust litla stúlku fyrir rúmum mánuði síðan. Hún hefur fengið nafnið Hugrún Lea.

„Við erum mjög hamingjusöm og það gengur ótrúlega vel hjá okkur.“ 

„Ég er farinn að læka myndir af börnum á Instagram aftur, þannig að þetta er allt að gerast,“ bætir Hörður þá við. Ása varð ófrísk á meðan þau voru á bið eftir tæknifrjóvgun hjá Livio. Þegar þau fengu símtalið að komið væri að þeim, var hún nú þegar orðin ófrísk með aðstoð hormónalyfja.

„Við vorum mjög hissa,“ viðurkennir Ása, en parið óttaðist þó að missa, eftir alla erfiðleikana sem á undan höfðu gengið.

„Þetta er búið að vera erfitt, þannig að maður heldur aftur að sér,“ segir Hörður um byrjun meðgöngunnar. Allt gekk þó vel og .að sem gerði ferlið ennþá einstakara, var að systir Ásu var ófrísk á sama tíma og eignuðust þær báðar stúlku með þriggja daga millibili.

Ása og Hörður dást að litlu stúlkunni sem þau biðu svo lengi eftir.Mynd/Ísland í dag

„Núna er þetta fullkomið,“ segir Ása.

„Ég held að þetta hafi bæði gert okkar samband miklu sterkara og ég held að við elskum hana bara þeim mun meira af því að þetta var löng bið, hún er dásamleg,“ segir Hörður.

Þau gefa fólki í sömu stöðu og þau voru sjálf í fyrir ári, þau ráð að halda í vonina. Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Móðurmál: Tilfinningarnar sem fylgdu ófrjósemi hurfu ekki á augabragði

„Ég varð mjög kvíðin fyrstu mánuðina um að missa. Svo er líka sérstök tilfinning að vera komin úr „ófrjósemis“ hópnum yfir í „meðgöngu“ hópinn sem þurfti smá að venjast og manni fannst maður smá vera að yfirgefa þær sem voru enn að reyna,“ segir Gunnhildur Gunnarsdóttir,

„Maður er að missa von og drauma“

Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir hefur síðustu þrjú ár reynt að eignast barn án árangurs og segir að ferlið hafi kennt sér mikið æðruleysi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.