Alma Möller landlæknir ítrekaði mikilvægi nærgætinnar umfjöllunar um kórónuveirufaraldurinn á upplýsingafundi í dag. Óviðeigandi væri að tengja smit, veirur eða faraldra við ákveðna staði líkt og dæmi séu um nú.
Vísaði Alma þar til umræðu um þá veiru sem hefur náð að dreifast í samfélaginu undanfarnar vikur. Hún sagði smitin ýmist vera tengd við Akranes eða Rangá í samfélagsumræðunni en ítrekaði að ekki væri vitað um uppruna veirunnar. Tilfellin hefðu aðeins fundist þar.
Hún sagði umrætt raðgreiningarmynstur nú greinast í öllum landshlutum og því ætti ekki að tengja það við tiltekna staði að hennar mati. Það væri áfall að greinast með Covid-19 og enn frekar þegar það leiddi til þess að aðrir smituðust einnig.
Í máli Ölmu á fundinum undirstrikaði hún jafnframt að allir þeir sem fyndu fyrir einkennum, hefðu áhyggjur af heilsu sinni eða væru að glíma við sjúkdóma ættu ekki að hika við að hafa samband við heilsugæsluna eða aðrar heilbrigðisstofnanir.