Viðskipti innlent

69 sagt upp hjá ferðaþjónustufyrirtæki

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vinnumálastofnun býst við auknu atvinnuleysi á næstu mánuðum.
Vinnumálastofnun býst við auknu atvinnuleysi á næstu mánuðum. Vísir/Vilhelm

Næstum sjötíu manns var sagt upp hjá ferðaþjónustufyrirtæki í dag og barst Vinnumálastofnun tilkynning þess efnis í morgun. Þetta staðfestir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri stofnunarinnar, en hún segir jafnframt að í ljós komi eftir helgi hvort fleiri tilkynningar um hópuppsagnir berist. Vinnumálastofnun gefur ekki upp um hvaða ferðaþjónustufyrirtæki ræðir.

Unnur segir að enn sé ekki farið að bera mikið á nýjum umsóknum um atvinnuleysisbætur. Heildaratvinnuleysi var um 8,8 prósent í júlí, en búist er við að það muni aukast þegar áhrifa uppsagna frá því í vor fer að gæta.

Áætlað er að atvinnuleysið í lok árs verði um 10 prósent. Því ætti ekki að koma á óvart ef að um 3000 manns muni missa vinnuna í hverjum mánuði fram til áramóta. Nýleg könnun Gallup benti þannig til að um 38 prósent fyrirtækja geri ráð fyrir að fækka starfsfólki næsta hálfa árið.

Forstöðumaður efnahagssviðs SA sagði í samtali við fréttastofu í gær að raunatvinnuleysið gæti verið á annan tug prósenta. „Það er talað um skuggaatvinnuleysi í peningamálum sem tekur tillit til þeirra sem mælast utan vinnumarkaðar. Ef við bætum svo við þeim sem eru á hlutabótum þá er atvinnuleysið í raun nær 16 prósentum en því sem opinberar tölur gefa til kynna.“


Tengdar fréttir

Telja of mikla bjartsýni ríkja í Svörtuloftum

Samtök atvinnulífsins telja að spá Seðlabankans sé of bjartsýn. Seðlabankinn gerir ráð fyrir sjö prósenta samdrætti í landsframleiðslu í ár og tíu prósenta atvinnuleysi í lok árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×