Ungmennaráð Árborgar hefur lagt það til við bæjarstjórn Árborgar að allar byggingar, sem byggðar eru á vegum sveitarfélagsins séu svansvottaðar en svansvottun er opinbert norrænt umhverfismerki.
Bæjarstjórn Árborgar hefur samþykkt að vísað erindi ungmennaráðs til fræðslunefndar, eigna- og veitunefndar og umhverfisnefndar til skoðunar. Ungmennaráð vill að allar byggingar, sem byggðar eru á vegum Árborgar séu Svansvottaðar og segir að góð byrjun væri nýr grunnskóli sem er verið að byggja á Selfossi.
„Þeir sem sækja um vottunina þurfa að sýna fram á að varan sé umhverfisvæn allt frá framleiðslu og þar til henni er fargað. Þetta er vottun sem norræna ráðherranefndin kom á fót 1989 og Umhverfisstofnun sér um þetta hér á Íslandi,“ segir Egill Örnuson Hermannsson, sem á sæti í ungmennaráði Árborgar.
En hvað kemur til að ungmennaráð Árborgar er að spá í þessi mál?
„Við brennum mikið fyrir umhverfismálum og ungt fólk nú til dagsins. Innblásturinn fyrir þetta var að ráðið komast að því að nýr skóli í Kópavogi, nýr Kársnesskóli átti að vera byggður af hefðbundnum hætti, þar að segja steinsteypu og svo kom sú hugmynd upp á borðið hjá þeim að húsið yrði frekar byggt úr timbureiningum og skólinn yrði þá allur svansvottaður. Þá ætluðum við nú ekki að vera númer tvö í Árborg, við ætluðum bara að vera best og þá að byggja okkar eigin skóla Svansvottaðan,“ segir Egill.

Egill segir að nýr miðbær, sem er verið að byggja á Selfossi af einkaaðilum sé svansvottaður og því ætti Árborg að fara létt með það að svansvotta sínar byggingar, sem verða byggðar í framtíðinni.
En hvernig hefur bæjarstjórn Árborgar tekið bókun ungmennaráðsins?
„Þau tóku ágætlega í það á síðsta fundi bæjarstjórnar, þau samþykktu samhljóða að setja málið í nefndir og ætla svo að skoða hvað þetta þýðir fyrir sveitarfélagið,“ segir Egill.