Innlent

Selja síma og tölvur sem aldrei berast

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögreglan varar við svikahröppunum.
Lögreglan varar við svikahröppunum. Vísir/getty

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú nokkur fjársvikamál þar sem fólk telur sig hafa keypt raftæki af sölusíðum á netinu en fær þau aldrei send. Þá fá kaupendur jafnan falsaðar kvittanir fyrir greiðslunni.

Í tilkynningu um málið frá lögreglu segir að fólk hafi í góðri trú keypt síma og tölvur á netinu. Seljandinn, sem segist búa utan höfuðborgarsvæðisins, lofi að senda varninginn í pósti um leið og greiðslan berist. Þarna sé hins vegar um fjársvik að ræða því hvorki símar né tölvur hafi borist kaupendum.

Lögregla varar við umræddum svikahröppum og hvetur fólk til að gæta að sér í viðskiptum á netinu sem og annars staðar. 

„Þetta á ekki síst við í þeim tilvikum þar sem óskað er eftir fyrirfram greiðslu inn á reikninga, en þá hefur kaupandinn oft ekkert í höndunum sem tryggir að hann fái umrædda vöru,“ segir í tilkynningu lögreglu um málið.

Talsvert hefur borið á því undanfarið að svikahrappar nýti sér netið til að svíkja fé út úr fólki. Nú síðast voru nöfn og viðmót nokkurra fyrirtækja og stofnana notuð til að reyna að fá fólk til að gefa upp kreditkortaupplýsingar sínar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×