Erlent

Telja réttarhöldin vegna Khashoggi ógegnsæ

Kjartan Kjartansson skrifar
Jamal Khashoggi var í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum en fór til Istanbúl til að sækja sér gögn fyrir brúðkaup sitt. Unnusta hans beið fyrir utan á meðan hann fór inn á ræðisskrifstofu Sáda í borginni en þaðan sneri hann ekki lifandi.
Jamal Khashoggi var í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum en fór til Istanbúl til að sækja sér gögn fyrir brúðkaup sitt. Unnusta hans beið fyrir utan á meðan hann fór inn á ræðisskrifstofu Sáda í borginni en þaðan sneri hann ekki lifandi. Vísir/AP

Réttarhöld vegna morðsins á Jamal Khashoggi sem fóru fram í Sádi-Arabíu skorti gegnsæi og drógu ekki þá seku til ábyrgðar, að mati mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna. Átta manns voru dæmdir í fangelsi fyrir meinta aðild að morðinu.

Vestrænar leyniþjónustustofnanir telja að Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, hafi gefið skipun um morðið á Khashoggi sem var gagnrýninn á stjórnvöld í heimalandi sínu. Sveit manna sem var send frá Sádi-Arabíu tók á móti honum á ræðisskrifstofu Sáda í Istanbúl þegar Khashoggi kom að sækja skjöl fyrir brúðkaup sitt í október árið 2018. Talið er að Khashoggi hafi verið myrtur á ræðisskrifstofunni og lík hans hlutað niður. Líkamsleifar hans hafa aldrei fundist.

Enginn sem var grunaður um að skipa fyrir um morðið var dæmdur í málinu í Sádi-Arabíu. Átta ónefndir einstaklingar voru sakfelldir fyrir þátt í því en dauðadómi yfir fimm þeirra var snúið við eftir að einn sona Khashoggi fyrirgaf þeim fyrir hönd fjölskyldunnar.

Rupert Colville, talsmaður mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, sagði að gegnsæi um málsferðina hefði verið ábótavant, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar. Hvatti hann til þess að þeir seku væru dregnir til ábyrgðar og þeim gerð refsing í hlutfalli við glæpinn.


Tengdar fréttir

Lokaniðurstaða í máli Khashoggi í Sádi-Arabíu

Dómstóll í Sádi-Arabíu kvað um lokaniðurstöðu í máli vegna morðsins á Jamal Khashoggi, sádi-arabísks blaðmanns. Sjálfstæðis dómstólsins og réttarhaldanna hafa verið dregin í efa enginn var sakfelldur fyrir að hafa skipað fyrir um morðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×