Lögreglan reynir nú að skera úr um hvort konurnar tvær, sem heimsóttu enska landsliðsmenn á Hótel Sögu, höfðu vitneskju um að þeir hefðu verið í sóttkví. Báðar hafa þær neitað því. Ensku landsliðsmennirnir gengust við broti á sóttvarnalögum og greiddu 250.000 króna sekt.
Þessi heimsókn átti sér stað á sunnudag. Ensku landsliðsmennirnir eru þeir Mason Greenwood og Phil Foden sem höfðu verið í samskiptum við þær Láru Clausen og Nadíu Sif Líndal. Þeir bókuðu tvö herbergi fyrir konurnar þar sem þeir hittu þær.
Landsliðsmennirnir voru yfirheyrðir af rannsóknarlögreglumönnum á Hótel Sögu í gær þar sem þeir gengust við brotunum, báðust afsökunar og greiddu sekt. Báðir voru þeir reknir úr enska landsliðshópnum og má búast við frekari refsingum frá liðunum þeirra, Manchester City og Manchester United. Einkavél var send eftir þeim til Íslands frá Manchester í gærkvöldi.
Málið hefur tekið yfir bresku pressuna þar sem þeir eru harðlega gagnrýndir fyrir heimskupör og hafa birst viðtöl við Láru og Nadíu. Báðar segjast þær ekki hafa gert sér grein fyrir að landsliðsmennirnir hefðu átt að vera í sóttkví og þverneita að hafa lekið myndefni af heimsókninni í fjölmiðla.
Lögreglurannsókn gagnvart Nadíu og Láru er hins vegar ekki lokið. Þær voru ekki í sóttkví fyrir heimsóknina og voru ekki skikkaðar í sóttkví eftir hana.
„Rannsókninni miðar vel áfram. Við erum búnir að klára að ræða við þá og sekta. Svo eru þeir farnir af landi. Nú eigum við eftir að ræða við stúlkurnar tvær og meta hvort þær hafi gerst brotlegar við sóttvarnalög,“ segir Guðmundur Pétur Guðmundsson lögreglufulltrúi á höfuðborgarsvæðinu.
En getur sá sem ekki er í sóttkví, gerst brotlegur um reglur um sóttkví?
„Það er einmitt það sem við ætlum að reyna að komast að. Höfðu þær vitneskju um að ensku landsliðsmennirnir væru í sóttkví eða ekki. Þetta kemur í ljós þegar við ræðum við þær,“ segir Guðmundur Pétur.