Skoðun

Standast kjara­samningarnir endur­skoðun?

Drífa Snædal skrifar

Í dag fer fram rafrænt þing ASÍ-UNG þar sem ný forysta ungs fólks innan hreyfingarinnar verður kosin, en ungliðastarfið hefur vaxið og dafnað hin síðari ár. Það er góð tilfinning að vita af öflugu fólki sem er í stakk búið til að verja kjör vinnandi fólks í framtíðinni og sækja fram. Ég óska þeim alls hins besta og hlakka til samstarfsins með nýrri forystu.

Forsendunefnd ASÍ og SA kom saman í vikunni á fyrsta fundi sínum en hlutverk hennar er að meta hvort forsendur kjarasamninga hafa staðist. Nefndin þarf að komast að niðurstöðu fyrir lok mánaðarins. Framundan er því mat á árangri kjarasamninganna sem undirritaðir voru í apríl og maí í fyrra, hvort markmið þeirra hafa haldið og hverju þarf að ná fram til að svo megi verða. Það er alveg ljóst að markmið um kaupmáttaraukningu og vaxtalækkun hafa náðst en samningarnir voru undirritaðir með hliðsjón af yfirlýsingu stjórnvalda meðal annars um aðgerðir til að bæta kjör fólks á húsnæðismarkaði, vörn gegn félagslegum undirboðum, skattalækkanir, lengingu fæðingarorlofs og skref til afnáms verðtryggingar.

Megnið af þessum loforðum sem gefin voru í tengslum við kjarasamningana hafa haldið en ekki öll tímasettu loforðin. Í stórri hreyfingu þarf að gæta þess að raddir sem flestra heyrist og því hefur miðstjórn ákveðið að boða til formannafundar í ASÍ þann 22. september nk. til að ræða endurskoðunarákvæði kjarasamninganna. Í ASÍ eru 47 aðildarfélög og félagsmenn þeirra telja um 133.000 manns. Nú er tækifæri fyrir almenna félaga að mæta á fundi hjá sínu félagi og taka þátt í umræðum um kjarasamningana.

Góða helgi, Drífa.

Höfundur er forseti ASÍ.




Skoðun

Sjá meira


×