Tveir 18 ára menn voru handteknir í austurbæ Reykjavíkurborgar á þriðja tímanum í nótt, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Voru þeir grunaðir um að þjófnað úr bílum og að hafa kveikt í einum bíl. Þeir voru vistaðir í fangageymslu.
Þá segist lögreglan hafa haft afskipti af konu á fertugsaldri um klukkan 23:15, þar sem barn hennar var laust í bifreið hennar og enginn öryggisbúnaður í notkun. Kom þá í ljós mikið magn áfengis í bifreiðinni og konan viðurkenndi ólöglega sölu áfengis.
Náinn aðstandandi er sagður hafa tekið við barninu, konan látin laus eftir skýrslutöku og barnaverndarnefnd gert viðvart um málið.
Þá segir í dagbókinni að par hafi um klukkan 19 verið handtekið í Grafarholti vegna kannabisræktunar upp á 30 plöntu og 2 kíló af tilbúnum efnum. Þau hafi viðurkennt brotið og verið látin laus að lokinni skýrslutöku.