Innlent

Rafræn samstaða með egypsku fjölskyldunni: „Ómannúðlegar aðgerðir stjórnvalda stangast á við vilja samfélagsins“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Sema Erla Serdar er í forystu fyrir hjálparsamtökin Solaris. 
Sema Erla Serdar er í forystu fyrir hjálparsamtökin Solaris.  Vísir/eyþór

Solaris, hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, boða til rafrænnar samstöðu í dag með egypsku fjölskyldunni sem vísa á úr landi á miðvikudag.

Sema Erla Serdar, stofnandi samtakanna, segir yfir tíu þúsund undirskriftir vera komnar í söfnun samtakanna gegn ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að vísa fjölskyldunni úr landi.

„Þetta er lýsandi fyrir andstöðu samfélagsins við þessar ítrekuðu aðferðir stjórnvalda við að senda flóttabörn úr landi,“ segir hún.

Samstaðan fer fram á samfélagsmiðlum í dag þar sem myndir af börnum verða settar inn undir myllumerkinu „Ekki í okkar nafni".

Sema Erla segist áhyggjufull yfir framtíð þessara barna.

„Ég hef mjög miklar áhyggjur af því að þessi börn séu á leið úr landi og aftur á flótta um ókomna tíð í næstu viku. Okkur er misboðið viðbrögð ráðafólks og aðgerðaleysi þeirra í þessu máli. Enn og aftur erum við að sjá hvernig ómannúðlegar aðgerðir stjórnvalda stangast á við vilja samfélagsins.“

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í Sprengisandi í morgun að henni fyndist ómannúlegt hve lengi fjölskyldunni er haldið í óvissu. 

Áður hafði dómsmálaráðherra vísað til reglugerða og að brottvísun samræmist þeim. Barnamálaráðherra hefur sagt málið á borði dómsmálaráðherra og að hann treysti henni til að fylgja barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×