Innlent

Hlaut ellefu skurði og stungu­sár í lífs­hættu­legri hnífaárás

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Karlmaður á fertugsaldri sem réðst að tilefnislausu á leigusala sinn með hnífi hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps. Leigusalinn hlaut fjölmörg stungusár og skurði og glímir enn við eftirköst árásarinnar.

Árásin átti sér stað að morgni 15. júní í Reykjavík þegar árásamaðurinn birtist að tilefnislausu í annarlegu ástandi, vopnaður hnífi í húsakynnum konu sem var leigusali hans. 

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hótaði að hann konunni lífláti og gerði ítrekaðar tilraunir til veita henni lífshættulega áverka á höfði, hálsi og líkama. Henni tókst að verjast alvarlegustu hnífstungunum en hlaut alls ellefu skurði og stungusár í árásinni. Konan hafði ekki haft nein fyrri kynni af manninum önnur en þau að leigja honum út húsnæði í afar stuttan tíma.

Konunni tókst að gera lögreglu viðvart og var færð á slysadeild en var ekki í lífshættu að sögn Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu á þessum tíma.

Maðurinn vildi ekki afvopnast þegar lögregla kom á staðinn og var sérsveitin kölluð til sem þurfti að beita táragasi og gúmískotum til að yfirbuga hann. Maðurinn sem hefur áður komið við sögu lögreglu samkvæmt heimildum fréttastofu var með hreint sakavottorð á þessum tíma.

Maðurinn var handtekinn og færður í gæsluvarðhald. Á mánudaginn gaf héraðssaksóknari út ákæru í málinu og er maðurinn ákærður fyrir tilraun til manndráps. 

Konan hefur enn ekki náð fullum bata eftir árásina.


Tengdar fréttir

Réðst á leigu­sala sinn að til­efnis­lausu

Alvarleg líkamsárás sem gerð var í gærmorgun í Reykjavík var tilefnislaus áras af hendi nágranna, sem jafnframt var leigjandi þolandans, samkvæmt heimildum fréttastofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×