Fótbolti

Farseðillinn til Ítalíu tæklaður af Hólmberti?

Sindri Sverrisson skrifar
Hólmbert Aron Friðjónsson fagnar eftir að hafa komið Íslandi yfir gegn Belgíu í síðustu viku.
Hólmbert Aron Friðjónsson fagnar eftir að hafa komið Íslandi yfir gegn Belgíu í síðustu viku. vísir/getty

Hólmbert Aron Friðjónsson meiddist, var svikinn um vítaspyrnu og gæti hafa misst af tækifæri til að fara til ítalska knattspyrnufélagsins Brescia, alla vega um tíma.

Hólmbert, sem skoraði mark Íslands gegn Belgíu í Þjóðadeildinni á dögunum, fór meiddur af velli á 28. mínútu í leik með Aalesund gegn Sarpsborg í norsku úrvalsdeildinni í gær. Óttast var að meiðslin gætu verið alvarleg en norski miðillinn VG hefur eftir manni úr sjúkrateymi Aalesund að við myndatöku í dag hafi komið í ljós að ökkli Hólmberts væri óbrotinn, og að vonir stæðu til að hann gæti jafnvel spilað í næsta leik.

Hólmbert hefði átt að fá vítaspyrnu vegna tæklingarinnar en ekkert var dæmt og raunir Aalesund jukust. Liðið er langneðst í deildinni með sjö stig eftir sautján leiki. Tæklinguna má sjá eftir 25 sekúndur af myndskeiðinu hér að neðan.

Hólmbert hefur verið orðaður við ítalska B-deildarliðið Brescia, sem Birkir Bjarnason leikur með, og Sunnmörsposten segir í dag að Aalesund hafi hafnað tilboði frá Ítalíu í framherjann.

Joacim Jonsson, sérfræðingur Eurosport í Noregi, sagði í gær að meiðsli Hólmberts gætu sett stórt strik í reikninginn varðandi vonir hans um að komast til Ítalíu. Nú er þó komið í ljós að meiðslin eru ekki alvarleg.

„Strákurinn er á leiðinni út. Það var meira og minna frágengið. Ég hefði giskað á að þetta yrði hans síðasti leikur hérna, en nú gæti allt frestast varðandi samning. Fótbolti er ferskvara. Það gæti farið svo að þessi möguleiki bjóðist ekki aftur,“ sagði Jonsson.


Tengdar fréttir

Hólmbert: Hugsaði bara um að láta vaða

Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði mark Íslands er liðið tapaði 5-1 fyrir Belgíu á útivelli í kvöld. Framherjinn var nokkuð sáttur með sína frammistöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×