Útsendarar ítalska stórveldisins Juventus fylgdust með Ísaki Bergmanni Jóhannessyni, leikmanni Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni, í kvöld er lið hans vann Kalmar 2-0 á útivelli.
Þetta kemur fram á sænska miðlinum Expressen.
Hinn 17 ára gamli Ísak Bergmann hefur átt frábært tímabil í liði Norrköping og skoraði fyrra mark liðsins í 2-0 sigri liðsins á útivelli gegn Kamar í kvöld. Var það þriðja mark Ísaks á tímabilinu en hann hefur einnig lagt upp sex mörk.
Magiskt förarbete av Levi när Ísak Bergmann Jóhannesson ger Norrköping ledningen pic.twitter.com/cYq7FR0Fez
— Dplay Sport (@Dplay_Sport) September 14, 2020
Irma Helin, sérfræðingur Dplay – sem sýnir sænska boltann – segir að Ísak Bergmann sé einstakur leikmaður. Að hafa jafn gott auga fyrir leiknum og Ísak hefur sé í raun magnað miðað við aldur hans.
Það verður spennandi að fylgjast með hvort Juventus – sem hefur unnið ítölsku úrvalsdeildina níu ár í röð – festi kaup á íslenska unglingalandsliðsmanninum. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir íslenska U21 árs landsliðið á dögunum er liðið lagði Svíþjóð af velli. Alls á hann 22 leiki fyrir yngri landsliðin og hefur gert í þeim 11 mörk.