Skoðun

Auðveldasta leiðin til þess að auka framboð á hagkvæmu húsnæði

Jórunn Pála Jónasdóttir skrifar

Eins og þekkt er hefur þurft að ráðast í ýmsar lausnir til þess að vinda ofan af húsnæðisvandanum og háu húsnæðisverði í borginni. Eðlileg ársfjölgun á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu var undir meðaltali á árunum 2009 til 2016. Í framhaldinu eða allt frá á árinu 2017 hefur fólksfjölgun verið talsvert minni í Reykjavík samanborið við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og eru því sterkar vísbendingar um að ekki hafi verið byggt nægjanlega mikið í Reykjavík. Afleiðingarnar eru að þvert á áætlanir borgaryfirvalda um þéttingu byggðar og nú sækir ungt fólk og fjölskyldufólk í meira mæli í nærliggjandi sveitarfélög.

Vandinn er heimatilbúinn

Við smíð á lausnum á húsnæðisvandanum hefur fallið til óheyrilegur kostnaður vegna vinnu ýmissa sérfræðinga og starfsfólks borgarinnar. En í grunninn snýst þetta jú bara um að hið sáraeinfalda lögmál um framboð og eftirspurn. Sé þörfinni eftir íbúðum mætt verða aðstæður ekki þannig að fasteignir og leiga þeirra geti verið verðlagðar upp í rjáfur. Svo skiptir máli hvar er valið að byggja. Þurfi að færa atvinnustarfsemi til þess að byggja nýjar íbúðir minnka líkurnar á því að fyrstu kaupendur geti fjárfest án einhvers konar niðurgreiðslu af hálfu hins opinbera. Sé hægt að nýta þegar tilbúna innviði aukast líkurnar.

Í miklum fasteignaskorti skapast ennfremur freistnivandi fyrir skipulagsyfirvöld til þess að stýra því hvernig fólk býr í stað þess að eftirspurn ráði því hvar sé byggt. Í dag er hátt fermetraverð og þröngbýli gjarnan fylgifiskur nýrra íbúða sem sagðar eru hagkvæmar og fullyrt er að langflestir vilji búa miðsvæðis. Ef litið er nánar á viðskipti á fasteignamarkaðnum sést hins vegar að það er ekki algilt, í austasta hverfi borgarinnar, það er Norðlingaholti, er til að mynda barist um íbúðir sem eru settar á sölu og söluverð er vanalega langt yfir fasteignamati. Fasteignaviðskipti hafa einnig verið fjörug í nærliggjandi sveitarfélögum á Suðurlandi, í Ölfus og Árborg svo eitthvað sé nefnt.

Gert ráð fyrir 4000 íbúðum í Vatnsmýri án vissu um nýtt flugvallarstæði

Framangreindur vandi hefur rist svo djúpt að ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að veita fjármunum í að vinda ofan af honum með því að gefa möguleika á svonefndum hlutdeildarlánum. Þau gera kaupendum kleift að fjárfesta í íbúð með lægri útborgun en áður. Þetta mun breikka mögulegan kaupendahóp og því verður á næstu árum jafnvel enn mikilvægara en áður að mæta eftirspurninni. Samtök iðnaðarins hefur metið svo að til ársins 2040 þurfi að byggja 1200 íbúðir á ári. Áætlun Reykjavíkurborgar tekur mið af þessu þannig byggja eigi um 1000 íbúðir á ári en þær fyrirætlanir gera þó ráð fyrir að byggðar verði 4000 íbúðir á flugvallarsvæðinu í Vatnsmýri. Fátt bendir til þess að svo geti orðið. Nýleg beiðni borgarstjóra um að færa flugvöllinn úr borginni mun ólíklega breyta neinu þar um enda er ekki búið að finna nýtt flugvallarstæði.

Til þess að koma í veg fyrir að höfuðborgin missi af lestinni öðru sinni er mikilvægt að tryggja öruggt framboð hagkvæms húsnæðis á næstu árum. Stoppa þarf í gatið í fyrirætlunum meirihlutans og því leggur Sjálfstæðisflokkurinn til að borgarstjórn samþykki í dag breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar sem heimilar íbúðabyggð í Keldnalandinu annars vegar og Örfirisey hins vegar. Samhliða þessu verði farið í að skipuleggja atvinnulóðir á Keldum.

Höfundur er fyrsti varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×