Handbolti

Basti: Leyfið manninum að spila nokkra leiki áður en þið farið að dæma hann

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Sebastian Alexandersson var sáttur með stigið.
Sebastian Alexandersson var sáttur með stigið. vísir/vilhelm

Sebastian Alexandersson, þjálfari Fram, var ánægður með stigið sem hans lið náði í gegn Aftureldingu Í Olís-deild karla í kvöld. Hann var þó ekki á allt sáttur með dómgæsluna í leik kvöldsins.

„Ég er gríðarlega ánægður með stigið. Við erum ekkert í frábærri stöðu en mér fannst við alveg eiga það skilið og jafnvel eitthvað meira, ég veit það ekki,“ sagði Sebastian Alexanderson, þjálfari Fram eftir jafntefli við Aftureldingu í kvöld.

Frammarar áttu erfitt með að stoppa öflugan sóknarleik Aftureldingar sem voru tveimur mörkum yfir, 13-15 þegar flautað var til hálfleiks. Þeir komu mun ákveðnari inn í seinni hálfleik en dugði það ekki til að hirða stigin tvö.

„Varnarleikurinn okkar er vanalega okkar sterkasta vopn og Afturelding fór illa með varnarleikinn hjá okkur í dag og þar af leiðandi fengum við ekki markvörslu. Það sýnir bara hversu klókur þjálfari Gunni er.“

Sebastian var óánægður með aðgerðaleysi dómararanna varðandi brot á Rógva Dal Christiansen.

„Í fyrsta lagi er ég ekki dómari. En mér finnst að línumaðurinn okkar sé ekki að fá sanngjarna meðferð. Það eru ekki búnar tvær umferðir af mótinu og fjölmiðlar og aðrir þjálfarar eru þegar byrjaðir að útmála hann sem einhvern fauta. Mér finnst þetta hafa áhrif á fólk. Leyfið þið manninum að spila nokkra leiki áður en þið farið að dæma hann.”

„Menn eru að detta hérna af honum að reyna að hanga í honum og strák greyið fær ekki neitt. En ég er ekki dómari og get ekki tekið ákvörðun um hvort þetta sé rétt eða rangt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×