Erlent

Mótmæla hertum aðgerðum stjórnvalda

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mótmælendur telja sér mismunað.
Mótmælendur telja sér mismunað. Pablo Blazquez Dominguez/Getty

Hundruð íbúa fátækari hverfa Madrídar, höfuðborgar Spánar, mótmæltu í dag sóttvarnaaðgerðum spænskra stjórnvalda. Mótmælendur telja hertar takmarkanir í ákveðnum hverfum borgarinnar til marks um mismunun.

Takmarkanirnar, sem taka gildi á morgun, munu ná til um það bil 850.000 einstaklinga, sem margir eru búsettir í hverfum þar sem tekjur eru undir meðallagi fyrir borgina og hlutfall innflytjenda af heildarfjölda íbúa er hærra en annars staðar.

Mótmælendurnir kölluðu eftir því að íbúum svæðanna yrði útveguð betri heilbrigðisþjónusta og sögðu stjórnvöld hafa „yfirgefið“ þá.

Íbúar Vallecas, umdæmis í suðurhluta Madrídar, segja heilbrigðiskerfið á svæðinu lamað. Þeir óttist þá að hertar takmarkanir muni hafa neikvæð áhrif á tekjumöguleika þeirra. Eins sögðust mótmælendur það skjóta skökku við að í „ríkari“ hverfum væru takmarkanir ekki jafn miklar og íbúar þeirra hefðu meira frelsi.

Ný bylgja kórónuveirufaraldursins gengur nú yfir Spán, sem er það Evrópuland þar sem flest hafa greinst með veiruna. Þar í landi er ástandið verst í Madríd, líkt og þegar fyrsta bylgja faraldursins reið yfir Evrópu.


Tengdar fréttir

Hátt í milljón þarf að sæta hertum aðgerðum á Spáni

Íbúar stórra hluta Madrídar, höfuðborgar Spánar, munu frá og með næstkomandi mánudegi þurfa að sæta hertum samgöngu- og samkomutakmörkunum vegna hraðrar útbreiðslu kórónuveirufaraldursins á Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×