Hópur mótmælenda safnaðist saman á samstöðufundi fyrir utan dómsmálaráðuneytið við Sölvhólsgötu í Reykjavík um hádegi í dag. Tilgangur fundarins var að sýna samstöðu með Khedr-fjölskyldunni, egypskri fjölskyldu sem vísa átti úr landi í síðustu viku en hefur verið í felum frá því á miðvikudag.
Um þrjátíu voru samankomnir fyrir utan dómsmálaráðuneytið þegar fréttamann bar þar að garði um hádegisbil. Þegar hafa farið fram fjölmenn mótmæli á Austurvelli vegna máls fjölskyldunnar en mörgum þykir ómannúðlegt að hana eigi að senda úr landi, einkum í ljósi þess að Khedr-börnin hafi skotið rótum í íslensku samfélagi.

Lögmaður Khedr-fjöskyldunnar lagði fram stefnu og beiðni um flýtimeðferð á máli hennar í Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudag. Fallist dómstjóri á flýtimeðferð gefur hann út stefnu og boðar lögmann fjölskyldunnar og ríkislögmann á sinn fund.
Hafni dómstjóri beiðninni mun lögmaðurinn fara hefðbundna leið, þ.e. stefna ríkinu og fara með málið fyrir dómstóla.