Daði Már Kristófersson var kjörinn nýr varaformaður Viðreisnar á landsþingi flokksins sem lauk í gærkvöldi. Hann var einn stofnenda flokksins og var þar til fyrir skömmu forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands og prófessor í hagfræði.
Kosið var á milli Daða Más og Ágústs Smára Bjarkarsonar. Daði Már hafði sigur með 198 atkvæðum gegn átta atkvæðum Ágústs Smára, að því er segir í tilkynningu á vef Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var endurkjörin formaður Viðreisnar á þinginu. Í stjórn flokksins voru kjörin þau Axel Sigurðsson, Benedikt Jóhannesson, Elín Anna Gísladóttir, Jasmina Vajzovic Crnac og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Varamenn voru kjörnir Karl Pétur Jónsson og Sonja Sigríður Jónsdóttir.