Kristófer Acox mun geta spilað með Val gegn Stjörnunni á föstudagskvöld þar sem að félagaskipti hans frá KR til Vals hafa verið heimiluð.
Íþróttadeild Sýnar hefur fengið það staðfest frá Val að KR-ingar hafi skrifað undir félagsskiptin og að Kristófer sé þar með orðinn leikmaður Vals.
Kristófer verður því gjaldgengur með Val frá upphafi tímabilsins í Dominos-deildinni í körfubolta. Óvissa hafði ríkt um hans mál eftir að KR neitaði að skrifa undir félagaskipti hans.
Kristófer rifti samningi sínum við KR í lok ágúst en sá samningur var aldrei sendur til KKÍ. Tæpar þrjár vikur eru síðan að Valur tilkynnti fjölmiðlum fyrst að Kristófer væri orðinn leikmaður félagsins.
Kristófer hefur átt í hörðum deilum við KR vegna vangreiddra launa. Eins og fram kom í viðtali Vísis við Pál Kolbeinsson, gjaldkera körfuknattleiksdeildar KR, telja KR-ingar að Kristófer eigi ekki inni nein laun hjá félaginu og saka hann um að hafa leynt alvarleika meiðsla þegar hann skrifaði undir samning.