Erlent

Sex nýjar ákærur á hendur Weinstein

Sylvía Hall skrifar
Weinstein á leið í réttarhöld fyrr á árinu. 
Weinstein á leið í réttarhöld fyrr á árinu.  vísir/getty

Saksóknarinn Jackie Lacey tilkynnti í dag að sex nýjar ákærur yrðu gefnar út á hendur kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein. Þar á meðal eru tvö tilvik sem eru sögð hafa átt sér stað fyrir meira en tíu árum síðan.

Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins. Ein ákæran snýr að atviki þar sem Weinstein er sakaður um að hafa nauðgað konu á hóteli í Beverly Hills árin 2004 og 2005 en hitt snýr að meintri nauðgun í nóvember 2009 og 2010.

Weinstein var dæmdur í 23 ára fangelsi í mars síðastliðnum fyrir kynferðisbrot gegn tveimur konum. Tugir kvenna hafa stigið fram undanfarin ár og sakað Weinstein um kynferðisofbeldi eða áreitni, margar hverjar ungar konur sem hann lofaði hlutverkum í Hollywood-kvikmyndum.

Weinstein var dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn Mimi Haleyi, aðstoðarframleiðanda, í íbúð hans árið 2006. Hann var einnig sakfelldur fyrir að hafa kynferðislegt samneyti með konu án þess að hún gæti gefið samþykki sitt árið 2013. Hann var sýknaður af alvarlegasta ákæruliðnum sem hefði getað þýtt lífstíðarfangelsi yfir honum.

Ellefu ákærur gegn framleiðandanum eru nú í ferli í Los Angeles.

Weinstein hefur ávallt neitað sök. „Harvey Weinstein hefur alltaf fullyrt að hvert einasta samneyti sem hann hefur átt hefur verið með samþykki. Það hefur ekkert breyst,“ sagði talsmaður hans um ásakanirnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×