Sport

Fékk stóra sekt fyrir að halda fjáröflunarkvöld og bjóða liðsfélögunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darren Waller fékk stóra sekt en liðsfélagar hans hjá Las Vegas Raiders fengu það líka.
Darren Waller fékk stóra sekt en liðsfélagar hans hjá Las Vegas Raiders fengu það líka. Getty/Ethan Miller

NFL-deildin tekur ekki vægt á brotum á sóttvarnarreglum hennar á tímum kórónuveirunnar og þeir sem gerast brotlegir finna vel fyrir því í veskinu sínu. Gott dæmi um þetta eru sektirnar sem var skellt á leikmenn Las Vegas Raiders af NFL í gær.

Darren Waller er ein stærsta stjarnan í liði Las Vegas Raiders og honum er líka umhugað um samfélagið og rekur góðgerðasamtökin Darren Waller Foundation.

Darren Waller hélt fjáröflunarkvöld á dögunum þar sem markmiðið var að safna pening fyrir ungt fólk sem glímir við áfengis- og eitulyfjavandmál. Alls söfnuðust 300 þúsund dollarar þetta kvöld eða meira en 41 milljón króna.

NFL-tímabilið er í fullum krafti og það er ljóst að smit innan liðanna getur haft miklar afleiðingar eins og sást um helgina þegar fresta þurftu einum leik og seinka öðrum.

Darren Waller fékk liðsfélaga sína til að mæta en fljótlega kom í ljós að þeir höfðu brotið sóttvarnarreglur NFL-deildarinnar með því að umgangast aðdáendur án þess að vera með grímur. Þetta sannaðist meðal annars á fjölda af myndum af leikmönnunum grímulausum með aðdáendum sínum.

Darren Waller sjálfur fékk langhæstu sektina eða upp á 30 þúsund Bandaríkjadali. Hinir leikmennirnir fengu 15 þúsund dala sekt en það voru þeir Derek Carr, Derek Carrier, Zay Jones, Nevin Lawson, Erik Magnuson (practice squad), Foster Moreau, Nathan Peterman, Hunter Renfrow og Jason Witten. Samtals gera þetta sektir upp á 165 þúsund dollara.

Sektirnar eru fyrir það að nota ekki grímur en NFL-deildin hefur í framhaldinu bannað leikmönnum deildarinnar að fara hér eftir á slíkar samkomur og eiga þeir bara að halda sig heima hjá sér eða í herbúðum síns liðs.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×